Alþingiskosningarnar í fyrra kostuðu Flokk fólksins 70 milljónir króna og ráða mestu um það að afkoma flokksins var mun verri í fyrra en árið á undan. Flokkurinn tapaði tæplega 39 milljónum króna í fyrra en hagnaðist um rúmar 39 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi flokksins sem birtur er á vef Ríkisendurskoðunar. Þetta er fyrsti ársreikningur stjórnmálaflokks á landsvísu sem er birtur vegna afkomu flokkanna í fyrra. Tekjur Flokks fólksins námu 79 milljónum króna í fyrra líkt og árið á undan. Útgjöldin jukust til muna. Þau fóru úr 44 milljónum í 126 milljónir. Mest munaði þar um Alþingiskosningarnar sem fyrr segir. Nær allar tekjur Flokks fólksins komu úr ríkissjóði, frá Alþingi og frá sveitarfélögum vegna greiðslna sem flokkar fá í samræmi við gengi þeirra í kosningum. Félagsgjöld námu 417 þúsund krónum.