Logi vill ræða stöðu íslenskunnar við stjórnendur Apple

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra, hefur óskað eftir fundi með stjórnendum Apple til að ræða stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi. Auk þess er unnið að fleiri leiðum til að koma íslenskunni að hjá fleiri tæknirisum. Þessu greinir Logi frá í aðsendri grein á Vísi í dag. Þar fjallar hann um stöðu íslenskunnar í tilefni af viku íslenskunnar. „Staða íslenskrar tungu er að mörgu leyti mjög sterk þótt hún sé ekki töluð af ýkja mörgum.“ Logi segir að einn af mikilvægustu þáttunum í þróun tungumálsins sé máltækni, samvinna tungumáls og tækni í hagnýtum tilgangi „svo sem hvernig tæknin getur skilið, talað, lesið, þýtt og skrifað tungumál“. Unnið er eftir máltækniáætlun um uppbyggingu máltæknilausna, gervigreindar og stafrænna innviða, segir Logi. Hann vísar til þess að Almannarómur hefji í vikunni heimildasöfnun um íslenskunotkun fyrirtækja landsins til að bæta við Risamálheildina raunsannri mynd af þeirri íslenskunotkun sem notuð er í atvinnulífinu. „Stór hluti af þessu starfi snýr að því að íslenska sé aðgengileg í nýjustu tækni,“ segir Logi og bendir á að fjöldi tækja sem landsmenn nota dag hvern hafi ekki íslenska valmynd. Þar tiltekur hann sérstaklega tæknirisann Apple. „Með því að tryggja að nýjasta tækni sé aðgengileg á íslensku hvort sem um ræðir Apple, Google eða aðra tæknirisa, tryggjum við að tungumálið okkar þroskist og þróist. Ég hef óskað eftir fundi með stjórnendum Apple til að ræða stöðu íslenskunnar í hinum stafræna heimi auk þess sem verið að vinna að fleiri leiðum til þess að koma tungumálinu okkar að hjá fleiri tæknirisum.“