Vikið úr starfi dómsmálaráðherra vegna tengsla við spillingu í orkugeiranum

Herman Halúsjtsjenkó, dómsmálaráðherra Úkraínu, hefur verið vikið úr starfi. Hann er sakaður um að hafa hagnast á spillingu í orkugeira landsins. Júlía Sviridenkó, forsætisráðherra Úkraínu, greindi frá brottrekstri hans í morgun. Ákvörðunin var tekin á neyðarfundi ríkisstjórnarinnar. Halúsjtsjenkó sagði í yfirlýsingu í morgun að hann hefði rætt við forsætisráðherrann og féllist á þessa ákvörðun. Það sé réttast að hann sitji ekki í embætti meðan á rannsókn stendur. Hann kveðst þó saklaus af öllum ásökunum. Eftirlitsstofnun Úkraínu gegn spillingu hefur undanfarið rannsakað mál tengd orkugeiranum. Á mánudag gerði stofnunin húsleit hjá Tymúr Minditsj, sem er náinn bandamaður Zelenskys forseta. Þeir voru áður viðskiptafélagar. Mindistj er sagður höfuðpaurinn í þessu spillingarmáli sem snýst um meintar mútugreiðslur. Þær eru taldar hlaupa á jafnvirði um þrettán milljarða króna. Stofnunin segir hóp manna hafa lagt á ráðin um að ná stjórn yfir mikilvægum ríkisstofnunum, meðal annars kjarnorkufélaginu Energoatom. Þeir hafi neytt fyrirtæki sem þjónusta Energoatom til að greiða sér undir borðið til að missa ekki viðskiptasamband sitt við orkufélagið. Eftirlitsstofnunin hefur sakað Halústjsjenko, sem var orkumálaráðherra á árunum 2021 til 2025, um að hafa látið Mindistj eftir stjórn á flæði fjármagns í orkugeiranum. Hann hafi hagnast persónulega á þeim greiða. Þetta spillingarmál hefur vakið mikla reiði almennings í Úkraínu. Þar hefur mikið reynt á orkuinnviði landsins í linnulausum árásum Rússa. Þeir eru einkar mikilvægir til að tryggja húshitun þegar vetur gengur í garð.