Styrkja þarf lögreglu á Íslandi með mannafla, skýrri stefnu og lagasetningu. Þetta kom fram á fundi dómsmálaráðherra og framkvæmdastjóra Europol í gær. Alþjóðlegar fjölþáttaógnir og skipulögð glæpastarfsemi færast í aukana alls staðar í álfunni. Verkefni og varnir sem því tengjast færast æ meira til lögreglunnar. Þessi mál voru rædd á fundi dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra með framkvæmdastjóra Europol, Catherine De Bolle. Þar var rætt um um evrópskt löggæslusamstarf á tímum fjölþáttaógna og nýrra áskorana í öryggismálum. Landamæralausir glæpir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra segir að innnan ráðuneytis síns sé mikil vinna í gangi í samstarfi við lögregluna, Landhelgisgæslunnar, varnarmálaskrifstofu og Europo varðandi fjölþáttaógnir. „Glæpur og ógnir ferðast landa á milli og þá verður samstarf opinberra aðila líka að geta gert það. Það er í því ljósi sem við erum að vinna áætlun og stefnu inn í dómsmálaráðuneytinu til dæmis,“ segir Þorbjörg Sigríður. „En af því að þú nefnir drónana og þessi atvik í Danmörku, þá finnst mér það færa okkur í svo mikinn sannleik um það hvað er mikil þörf á því að efla löggæsluna í landinu því þar sáum við að það var lögreglan fyrst og fremst sem var með þessu verkefni í fanginu. Þetta er það sem ég var að ræða við fulltrúa Europol og það var mjög mikilvægt að fá hana hingað til lands. Það er svo mikið verið að færa okkur þessi skilaboð um það hvað þessar alþjóðlegu ógnir og skipulögðu glæpir eru í reynd komnir í eina sæng saman og í því ljósi þurfum við að styrkja lögreglu með mannafla, með stefnu en líka með lagasetningu.“ Keflavíkurflugvöllur er landfræðilega mjög mikilvægur Fulltrúar íslensku löggæslunnar starfi nú þegar hjá Europol og Eurojust. Alþjóðlegt samstarf sé lykilatriði í að efla varnir gegn fjölþáttaógnum. „Og aftur nefni ég þetta í samhengi við drónaárásirnar í Danmörku. Þar var þetta svo skýrt. Þar tókst með truflun að að hafa áhrif á flug til landsins. Þetta er löggæsluverkefni,“ segir Þorbjörg Sigríður. Þetta sýni skýrt mikilvægi þess að fjárfesta af meiri krafti en verið hefur og þá fyrst og fremst hjá lögreglunni. “Hún er fyrsti punkturinn. Keflavíkurflugvöllur er landfræðilega mjög mikilvægur, jafnvel mikilvægari en Kastrup í Kaupmannahöfn. Þarna horfum við líka til staðsetningar Íslands í samhengi hlutanna. Við búum á landi þar sem er einn alþjóðlegur flugvöllur og viðbragðið og vitundin verður að vera í samræmi við það og þar ætla ég að fullyrða að það er góð vinna í gangi í utanríkisráðuneytinu og í dómsmálaráðuneytinu og við vinnum sameiginlega að þessum markmiðum með hlutaðeigandi alþjóðastofnunum.“