Norðmenn útiloka ekki aðkomu að risaláni ESB fyrir Úkraínu

Jens Stoltenberg fjármálaráðherra Noregs vill ekki útiloka að Norðmenn komi að því að tryggja fyrirhugað risalán Evrópusambandsins til Úkraínu. Umræða um þetta lán hefur staðið í nokkurn tíma, en það byggir á því að nýta fjármuni rússneska seðlabankans sem frystir voru í bankastofnunum í Evrópu. Stærstur hluti þessa fjár er í Belgíu, og stjórnvöld þar vilja samevrópskar tryggingar, fari svo að Rússar höfði mál til að fá þessa fjármuni og hafi betur fyrir dómstólum. Frysting þessara fjármuna byggir einnig á framhaldi refsiaðgerða ESB gegn Rússum, sem endurnýja þarf á sex mánaða fresti; Belgar óttast afleiðingarnar, fari svo að samstaða um þessar refsiaðgerðir rofni. Tveir norskir hagfræðingar lögðu það til nýlega að Norðmenn myndu nota olíusjóðinn til að tryggja þetta lán; þar væru nægir fjármunir til staðar, auk þess sem Norðmenn hafa haft verulega miklar tekjur af sölu á gasi til Evrópu undanfarin ár, eftir að verulega dró úr flutningi á orku frá Rússlandi til ríkja í vesturhluta Evrópu. „Það er ekki rétt að útiloka nokkuð áður en við höfum séð þá tillögu [frá Evrópusambandinu]“ sagði Stoltenberg í Brussel í dag, „en það hafa verið uppi hugmyndir um að Noregur ætti að ábyrgjast alla upphæðina, um 1600 milljarða [norskra] króna. Það er ekki raunhæft, en við getum lagt okkar af mörkum á einhvern hátt. Við verðum að skoða hvað ESB leggur til, en það mikilvægasta er ekki hvernig þessir peningar koma, heldur að Úkraína fái þá, og Noregur mun stuðla að því,“ sagði Stoltenberg í viðtali við NRK. Stoltenberg er hér í Brussel og sótti í morgun fund með kollegum sínum frá EFTA ríkjunum. Á morgun hitta þeir svo fjármálaráðherra ESB-ríkjanna, þar sem búast má við að hugmyndir um aðkomu Norðmanna að þessu risaláni verði ræddar. Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra sækir þessa fundi fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.