Skólastjóri gagnrýnir símabannsfrumvarpið – telur fjármunum betur varið til geðheilbrigðismála

Sviðstjóri hjá Netöryggissveit Íslands – Netvís segir frumvarp mennta- og barnamálaráðherra um símanotkun barna vera jákvætt skref og svar við ákalli innan samfélagsins. Skólastjóri Laugarnesskóla segir að vinnu og fé sem fór í frumvarpið hefði verið betur varið í geðheilbrigðisþjónustu barna. Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla sem fjallar meðal annars um hvort setja eigi samræmdar reglur um notkun snjalltækja og samfélagsmiðla í skólum. „Með frumvarpinu er lagt til að mennta- og barnamálaráðherra fái skýrar heimildir til að kveða á um notkun síma og snjalltækja í grunnskólum og í frístundastarfi,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Símabann í grunnskólum landsins hefur verið mikið til umræðu síðustu ár. Rætt var við Skúla Braga Geirdal, sviðsstjóra Netvís, og Björn Gunnlaugsson, skólastjóra í Laugarnesskóla, um frumvarp Guðmundar Inga í Morgunútvarpinu á Rás 2. Björn segir óþarfi að setja samræmdar reglur um símabann og að hver og einn skóli ætti að setja eigin reglur án afskipta stjórnvalda. Ástæður barna fyrir því að hafa síma meðferðis séu þar að auki mismunandi. „Það eru reglur um síma í hverjum og einum skóla, aðstæður þar eru mismunandi þannig að það er sjálfsagt að reglur í hverjum grunnskóla taka mið af því. [...] Mér þætti skrítið að hafa reglurnar í mínum skóla þannig að síminn verði að vera eftir heima. Því ég veit að krakkarnir nota hann til að taka strætó, tékka á æfingum og ýmislegt fleira, þannig að það væri svolítið kjánalegt ef þau þyrftu að hlaupa heim að sækja símann eftir skóla fyrst.“ Þá sé óljóst hvernig ætti að framfylgja slíku banni. Standi til að banna börnum að taka snjalltæki með í skólann þurfi slíku banni að fylgja fjárveitingar til að framfylgja því. „Ég þarf væntanlega að fá fjárheimildir frá Reykjavíkurborg fyrir málmleitartæki eða gegnumlýsingu. Ef við ætlum að banna nemendum að koma með tiltekinn hlut í skólann, hvernig eigum við að framfylgja því?“ Ekki kallað eftir algjöru símabanni Skúli segir að ekki sé hægt að alhæfa í þessum málum og fólk sé með mismunandi skoðanir á reglum um símanotkun barna. Hins vegar sé flókið þegar reglur séu mismunandi eftir skólum. „Það sem ég hef fundið fyrir í mínu starfi að fara á milli skóla er að það sé kallað eftir því að það sé einhvers konar samræming. En algjör miðstýring og miðstýrt bann, við erum ekki endilega að tala um það.“ Margt þurfi að hafa í huga en mikilvægast sé að aðgengi nemenda sé jafnt. Ætli skólar að nota snjalltæki sem námstæki þurfi þeir að skilgreina hann sem slíkan og fjárfesta í honum. Pennastrik frá ráðherra leysi ekki vandann Björn segist hvorki vita til þess né tala fyrir því að snjalltæki séu leyfð án takmarkana í skólum landsins. „Heldur bara því að, í fyrsta lagi, að skólum sé treyst til að setja reglur eftir sínum veruleika, og svo hitt að við eigum að treysta nemendum. Unga kynslóðin er upp til hópa skipuð frábæru frambærilegu fólki sem er yfirleitt ekki að gera neina vitleysu.“ Björn segir símabann geta leitt til þess að snjalltækjanotkun barna færist yfir í frítímann og jafnvel aukist. Hvergi sé nemendum leyft að nota snjalltæki frjálst í kennslustund. Vandamál eins og neteinelti og fjárhættuspil séu útbreiddari meðal unglinga en yngri barna. „Ég er ekki að segja að vandamálið sé ekki til staðar, ég hef bara miklar efasemdir um að eitt pennastrik frá mennta- og barnamálaráðherra leysi þann vanda.“ Björn segir símann geta verið skjól fyrir nemendur sem standi höllum fæti félagslega eða frá erfiðum félagslegum aðstæðum. „Ef ég á að velja milli þess að strákurinn minn sé kýldur við borðtennisborðið, eða að hann sé ekki kýldur því hann situr í símanum, þá vel ég það síðara.“ Ákall barna snúist fyrst og fremst um að fá skýr skilaboð frá fullorðna fólkinu um hvað þau megi og megi ekki. „Því auðvitað er það dálítið óskýrt, bæði frumvarpið og ástandið eins og það er. [..] Ég held að ef ráðherra hefði verið dálítið öruggur og sett alla þá vinnu og allan þann pening sem fór í þetta í að efla BUGL til dæmis þá hefði hann gert miklu meira gagn og hjálpað okkur í skólakerfinu miklu meira.“ Frumvarpið eitt skref af mörgum Skúli segir að fræðsla sé lykilþátturinn sem huga þurfi að. Það eigi við um kennara, nemendur og foreldra, sem þurfi allir að koma að mótun reglna um snjalltækjanotkun barna. Þá snúist vandinn ekki endilega um skjátíma heldur líka efni sem börnin hafi aðgang að í gegnum tækin. „Ég held í rauninni að þetta sé bara eitt skref af mörgum sem þyrfti að taka og skólinn er bara einn staður. Það þarf að sjálfsögðu að taka önnur skref, í mínum huga, varðandi heimilin. Þá mættum við horfa fyrst og fremst á innihaldið sem er í tækjunum. Það held ég að við séum sammála um að við þurfum að fræða okkur meira um.“