Katla Ársælsdóttir skrifar: Margir þekkja leikrit Williams Shakespeare um danska prinsinn Hamlet enda eitt frægasta verk leikhússögunnar. Hamlet er um þessar mundir á litla sviði Borgarleikhússins í leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur. Hamlet Danaprins, leikinn af Sigurbjarti Sturlu Atlasyni, er heltekinn af sorg eftir andlát föður síns. Þá er hann ósáttur við að móðir hans Gertrúd, sem Sólveig Arnarsdóttir leikur, hafi svo fljótt eftir andlátið gifst Kládíusi föðurbróður hans, sem Hilmir Snær Guðnason leikur. Í byrjun verksins birtist Hamlet og Hórasi, leiknum af Hákoni Jóhannessyni, vofa sem í þessari uppsetningu minnti einna helst á Svarthöfða í Stjörnustríðsmyndunum. Vofan, sem segist vera faðir Hamlets, tilkynnir þeim að Kládíus bróðir hans hafi drepið hann og vill að Hamlet hefni sín. Þrátt fyrir að Hamlet sé fullur efasemda um sýnina ákveður hann að komast til botns í málinu og gerir sér upp brjálæði svo engan gruni raunverulega ætlun hans. Þar með fer af stað örlagarík atburðarás sem endar í hryllilegu blóðbaði. Leikgerðin er eftir Kolfinnu Nikulásdóttur en hún reiðir sig á nokkrar ólíkar þýðingar eftir Helga Hálfdánarson, Ingivald Nikulásson, Matthías Jochumsson og Þórarin Eldjárn. Hún leikur sér mikið með textann og hann er mikið til á ensku, of mikið á köflum. Sögusviðið er fært til nútímans þar sem persónur sjást nota snjallsíma, birta efni á samfélagsmiðlum og taka leigubíla. Ætlun aðstandenda sýningarinnar er að setja leikrit Shakespeares í nýjan búning fyrir nýjar kynslóðir. Því er mikið talað við samtímann og vitnað í poppmenningu eins og samskipti tónlistarmannsins Justins Bieber og hið svokallaða brain rot eða heilarýrnun, sem vísar til ógáfulegs efnis á netmiðlum. Í byrjun verksins gengur Sigurbjartur inn á sviðið, kynnir sig undir eigin nafni og segist leika Hamlet. Hann ræðir tilgang leikhússins við áhorfendur og segir það spegil á mannlegt eðli. Hér séum við öll saman komin til þess að upplifa eitthvað einstakt saman. Meðan á ræðunni stendur tínast leikararnir inn á sviðið og eru kynntir með nafni. Áhorfendur eru þar með rifnir úr verkinu um leið og það byrjar og verða meðvitaðir um hvar þeir eru og hvaða hlutverki þeir og leikararnir gegna. Þetta er áhugaverð leið til að byrja verkið en að mínu mati hefði mátt sleppa þessu atriði, þar sem aftenging af þessu tagi er lítið notuð á öðrum stöðum í sýningunni og mér fannst það því ekki þjóna tilgangi. Hamlet syngur þekkt popplög eins og Lonely með tónlistarmanninum Justin Bieber og Ófelía syngur All apologies með hljómsveitinni Nirvana. Lögin endurspegla tilfinningalíf þessara persóna en það var einum of augljóst og óþarft þar sem textinn gerir það nú þegar. Hamlet gengur í gegnum margt í leikritinu og verður fyrir mörgum áföllum og mikilli sorg. Hins vegar átti ég erfitt með að finna til samúðar með honum og þótti mér þörf á frekari dýpt í persónuna. Það sama mætti segja um fleiri persónur verksins en sú margslungna persónusköpun sem er í frumtextanum glatast í þessari uppfærslu. Valið á Vilhelm Neto í hlutverk Pólóníusar þótti mér áhugavert þar sem hann er einum of ungur til að vera sannfærandi sem faðir Hjartars Jóhanns Jónssonar sem leikur Laertes og Berglindar Öldu Ástþórsdóttur sem leikur Ófelíu. Hann er þó sannfærandi í hlutverkinu þar sem áhersla er lögð á gamanhlið persónunnar og Vilhelm er mjög hæfileikaríkur gamanleikari. Á einum tímapunkti í sýningunni lætur Hamlet Hóras apa eftir sér alls kyns óþægilega og stuðandi frasa fyrir Pólóníus og gerir það til að ýta undir þá ímynd að hann gangi ekki heill til skógar. Þetta uppistand fer fyrir brjóstið á Pólóníusi sem rýkur ævareiður út af sviðinu. Það sem var þó athyglisverðast við þetta tiltekna atriði var að fylgjast með tveimur áhorfendum emja úr hlátri yfir því sem var sagt. Þegar Hamlet spurði salinn hvort hann hefði gengið of langt svöruðu þessir sömu að svo væri ekki. Þessi viðbrögð áhorfendanna gáfu atriðinu aukna merkingu og sýndu pólaríseringu í skoðunum og vægi orðanna. Filippía Elísdóttir sér um búninga. Klæðnaður Ófelíu stakk í stúf við hinar fínklæddu persónurnar en fyrir utan hana og Hamlet klæðast allir virðulega. Berglind Alda líktist einna helst Biöncu Censori, eiginkonu hins umdeilda rappara Kanye West, sem er iðulega með hárið sleikt aftur, klædd þröngum og efnalitlum fötum eins og Ófelía er í þessu verki. Birtingarmynd brjálæðis Hamlets sýnir hann sem samsæriskenningasmið, hann einn sér hvernig er að fara fyrir heiminum og hann er boðberi sannleikans. Brjálæði hans einskorðast ekki við samskipti hans við þá sem standa honum næst heldur sést hann í herbergi sínu tala við myndavélina eins og hann sé í netstreymi. Hann hefur einnig sankað að sér fylgjendum sem drengjahópur túlkar. Leikmyndin, sem Filippía Elísdóttir sá einnig um, er lítillát, míkrófónar og einstaka stólar á sviðinu ásamt löngum og mjóum spegli og hvítum drapperingum sem gegna lykilhlutverki í seinni hluta verksins. Nýtingin á rýminu var mjög áhugaverð, leikið var undir sviðinu, í áhorfendarými og uppi hjá ljósunum. Með því nær Litla sviðið að virka eins og fjögurra hæða höll. Þó svo að útfærslan hafi verið skemmtileg gerði hún áhorfendum erfiðara fyrir að sjá á sviðið og ég missti stundum af stórum hluta úr atriðum sem leikin voru á gólfinu. Að vera eða ekki að vera er óneitanlega frægasta setning leikritsins, ef ekki ein sú frægasta í leikhússögunni. Hún er endurtekin af hinum ýmsu persónum í gegnum verkið, sem eflaust er gert til að beina enn fremur sjónum að merkingu hennar. Áhorfendur spyrja sig hver sú merking sé í samhengi við fordæmalausan nútímann. Í dramatískum og ofbeldisfullum enda verksins liggja persónurnar hingað og þangað um sviðið ataðar blóði. Dramatísk tónlist Sölku Valsdóttur ómar og Hóras, sá eini sem enn er á lífi, er í öngum sínum þegar ferfættur vélhundur birtist á sviðinu og kippir áhorfendum rakleitt út úr dramatíkinni en hlátrasköll glumdu við þegar hann birtist. Áætla má að hundurinn sé í hlutverki norska prinsins Fortinbras, erfingja Hamlets, og því táknmynd endaloka þess mannlega sem víkur fyrir vélrænni framtíð. Frumleg ljósahönnun Pálma Jónssonar skein skært í verkinu, sér í lagi í lokin þegar ljósin endurkastast á speglinum og lýsa upp sviðið í dramatískum endalokum. Sömuleiðis þótti mér ljós á búningi Hamlets sem og ljós frá áhorfendum frumleg og skemmtileg útfærsla. Einvalalið leikara gerir persónum sínum góð skil. Hilmir Snær Guðnason í hlutverki Kládíusar og Berglind Alda Ástþórsdóttir sem Ófelía stóðu þó upp úr en tilfinningarík játning Kládíusar og yfirþyrmandi sorg Ófelíu eftir föðurmissinn voru eftirminnileg atriði. Uppsetning Borgarleikhússins á þessu klassíska verki Shakespeares á að höfða til yngri áhorfenda og nær því ætlunarverki. Sagan er sett í samhengi við nútímann og persónur verksins minna á og vitna í þekkta einstaklinga í poppmenningu samtímans. Vitnað er í öfgakennda hugmyndafræði sem hefur rutt sér til rúms á netinu á undanförnum árum og athyglisverð nálgun er að stilla Hamlet upp í hópi boðbera hennar. Drengjahópurinn, sem bregður reglulega fyrir í ólíkum hlutverkum, dýpkaði frásögnina til muna og þótti mér þeir ómissandi sem táknmynd ólíkra öfgahópa og skoðanabræðra Hamlets en hlutverk þeirra í lokaatriðinu var einnig áhrifaríkt. Leikgerð Kolfinnu gerir verk Shakespeares aðgengilegt yngri kynslóðum sem skilja netslangur og tilvitnanir í poppkúltúr. Þetta er metnaðarfull uppsetning á marglaga verki sem flestallir þekkja að einhverju leyti. Hún tekst á við tímalaus þemu á borð við svik, ást og missi en Kolfinna tengir þau þemu við poppmenningu og áhrifamikla einstaklinga. Verkið fær áhorfendur sömuleiðis til að líta gagnrýnum augum á samtímann. Katla Ársælsdóttir, sviðslistagagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, fjallar um Hamlet í uppsetningu Kolfinnu Nikulásdóttur á litla sviði Borgarleikhússins. „Þetta er metnaðarfull uppsetning á marglaga verki.“ Katla Ársælsdóttir flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1 sem finna má í spilaranum hér fyrir ofan. Katla lærði leikhúsfræði í Trinity College í Dublin og bókmenntafræði í Háskóla Íslands.