Hægviðri og þurrt veður hafa valdið talsverðri svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu segir sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun. Mistur hefur legið yfir helstu umferðargötum og mælar Umhverfis- og orkustofnunar sýnt óholl loftgæði á köflum síðustu tvo daga. „Það sem veldur er fyrst og fremst uppþyrlun á göturyki og það er hægviðri og áttleysa þannig að þetta safnast fyrir og hangir yfir okkur,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfis- og orkustofnun. Rætt var við hann í hádegisfréttum. Nagladekk valdi þessu að miklu leyti en hraði bíla skipti einnig máli. Þá mætti skoða að lækka hámarkshraða á stofnbrautum tímabundið til að stemma stigu við svifryksmengun. „Það er aðeins skárra ástandið í dag, enda voru helstu umferðargötur rykbundnar í nótt.“ Þorsteinn segir að rykbinding nægi oft til að laga ástandið. Hún virki í um tvo daga og að veðurspáin geri einmitt ráð fyrir úrkomu síðdegis á morgun. Götur á höfuðborgarsvæðinu voru rykbundnar í nótt og veðurspáin gerir ráð fyrir úrkomu á morgun. Svifryksmengun sem mælst hefur síðustu daga ætti því að fara minnkandi segir sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun.