Karlmaður á þrítugsaldri er ákærður fyrir kynferðisbrot á leikskólanum Múlaborg, þar sem hann starfaði. Ákæran var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ákæran gegn manninum hefur ekki verið birt og því er óljóst hvað hann er ákærður fyrir og hversu mörgum börnum ákæran lýtur að. Fyrir liggur að hann er grunaður um brot gegn fleiri en tíu börnum. Þinghaldið er lokað líklegast vegna ungs aldurs brotaþola. Maðurinn mætti ekki í dómsal í eigin persónu heldur sótti þinghald í gegnum fjarfundarbúnað. Starfsmaðurinn var handtekinn í ágúst og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í kjölfar þess að foreldrar barns höfðu samband við lögreglu, vegna gruns um að brotið hefði verið kynferðislega á barni þeirra. Í kjölfarið kom á daginn að maðurinn hefði verið undir sérstöku eftirliti í starfi sínu á síðasta ári eftir að foreldri barns á leikskólanum kvartaði undan sérkennilegri hegðun hans. Ekki liggur fyrir hvers eðlis hegðunin var né eftirlitið með störfum hans. Í kjölfar umfjöllunar um málið sagði borgarstjóri að það væri til skoðunar hvers eðlis ábending um háttalag starfsmanns Múlaborgar í fyrra var og í hvaða ferli hún hafi farið. Borgarráð samþykkti einnig að fela skóla- og frístundasviði að gera tillögur að úrbótum á öryggi og faglegu starfi í leikskólum borgarinnar.