Ísland og Noregur fá ekki undanþágu frá verndaraðgerðum ESB

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti íslenskum og norskum stjórnvöldum í gærkvöld að ríkin tvö fengju ekki undanþágu frá fyrirhuguðum verndaraðgerðum ESB vegna kísilmálms, sem verið hafa í undirbúningi síðustu misserin. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var utanríkismálanefnd Alþingis upplýst um þetta í gærkvöld, og utanríkisráðuneytið hefur verið í sambandi við hagsmunaaðila, meðal annars Samtök iðnaðarins og Elkem á Íslandi. Embættismaður hjá utanríkisráðuneytinu sagði í samtali við fréttastofu að þessi niðurstaða væri vonbrigði, en stjórnvöld bæði í Noregi og á Íslandi hafa undanfarið róið að því öllum árum að ríkin tvö - sem eru hluti af Evrópska efnahagssvæðinu - fengju undanþágu frá þessum fyrirhuguðu aðgerðum. Vonast hafði verið til að Ísland og Noregur yrðu undanþegin aðgerðum af þessu tagi, ekki síst eftir að Evrópusambandið tók slíka ákvörðun þegar tilkynnt var nýlega um verndaraðgerðir vegna stálframleiðslu í ESB-ríkjunum.