Arnar: „Þeir voru ekkert slakir á Laugardalsvelli, við vorum bara á okkar degi“

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er mætt til Aserbaídsjan þar sem liðin mætast annað kvöld. Hákon Arnar Haraldsson, fyrirliði Íslands, býst við svipuðum leiksstíl Asera en þó má reikna með hefndarhug. „Ég býst við að þeir leggist niður eins og þeir eru búnir að vera að gera. En þeir eru náttúrulega á heimavelli og vilja gera betur, hefna fyrir 5-0. Ég býst við að við þurfum að brjóta þá niður og halda svo áfram að keyra á þá.“ Hákon talar um að heimaleikurinn gegn Aserum sé einn skemmtilegasti sem hann hefur spilað. „Það virkaði allt, sendingar, skot. Við vorum gjörsamlega með þá. En það er langt síðan og það gefur okkur ekkert fyrir morgundaginn.“ Eftir leikinn á Laugardalsvelli var Fernando Santos látinn fara úr starfi þjálfara Asera. Þá tók Aykhan Abbasov við og annar bragur er á liðinu. Aserar gerðu jafntefli við Úkraínu í september en Úkraína vann nauman sigur 2-1 í glugganum í október. „Þeir voru ekkert slakir á Laugardalsvelli, við vorum bara á okkar degi,“ segir Arnar Gunnlaugsson. Mikael Egill ekki með Mikael Egill Ellertsson er að glíma við meiðsli og verður því ekki með í þessum glugga. „Við vildum gefa honum allan séns í heiminum en því miður fengum við þær fréttir áðan að hann er ekki í standi til að koma til móts við okkur og verður ekki í Úkraínuleiknum heldur.“ Arnar segir líklegt að einhver verði kallaður í hans stað fyrir Úkraínuleikinn. Ferðalagið og tímamismunrinn krefjandi Arnar segir að ferðalag íslenska liðsins og tímamismunurinn muni mögulega minnka bilið á milli leikmanna. „Þetta á ekki að hljóma eins og einhver afsökun en ég er bara sjálfur búinn að eiga erfitt með að sofna síðustu tvær nætur. Maður finnur að leikmenn eru svona smám saman að komast í gírinn. Þú verður að leyfa líkamsklukkunni að jafna sig.“ Leikur Aserbaídsjan og Íslands hefst klukkan 17:00 á morgun og verður sýndur í opinni dagskrá á Sýn Sport.