Plan A að fá ákvörðun ESB hnekkt

„Þetta eru auðvitað vonbrigði,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra um þá ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að undanskilja Ísland og Noreg ekki tollum á kísilmálm. Ólafur Adolfsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gerði frétt RÚV um ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar að umræðuefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Ólafur sagði þetta enn eitt áfallið fyrir atvinnusvæðið á Grundartanga og krafði ráðherra svara um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við. Hanna Katrín sagði að það væri skoðun stjórnvalda að ákvörðunin væri í ósamræmi við EES-samninginn. Því hafi verið haldið á lofti í hagsmunagæslu Íslands og svo verði áfram. „Ég veit að utanríkisráðherra og forsætisráðherra eru með sínu fólki í þéttum samtölum og við erum áfram samhliða félögum okkar í Noregi að halda því til streitu við aðildarríkin að þau snúi þessu við. Það er plan A.“ Sagði Hanna Katrín að plan B væri að ná því fram að tollkvótum og lágmarksverði á útfluning verði haldið í lágmarki þannig að áhrifin á Ísland verði sem allra minnst. Hún sé hins vegar vongóð um að plan A gangi upp.