Ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni á Múlaborg

Fyrrverandi starfsmaður leikskólans Múlaborgar hefur verið ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn stúlku í leikskólanum. Maðurinn er á þrítugsaldri og var handtekinn í ágúst, grunaður um brot gegn barni. Lögregla hefur síðan rannsakað möguleg brot gegn fleiri en tíu börnum. Í ákærunni segir að maðurinn hafi tvisvar sinnum á árinu haft önnur kynferðismök en samræði við barnið. Hann hafi misnotað yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni freklega og brugðist trausti hennar og trúnaði sem starfsmaður leikskólans. Í annað skiptið hafi hann notfært sér að stúlkan gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga. Nánari lýsingar á brotum mannsins gegn barninu hafa verið afmáðar úr ákærunni sem fréttastofu barst frá dómstólnum. Foreldri stúlkunnar krefst sjö milljóna króna fyrir hönd dóttur sinnar í skaða- og miskabætur. Dómritari í Héraðsdómi Reykjavíkur vildi ekki gefa upp afstöðu mannsins til sakargiftanna og sagði sér óheimilt að veita þær upplýsingar í ljósi þess að þinghaldið er lokað. Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en maðurinn sótti þinghaldið í fjarfundabúnaði.