Nafn Bandaríkjaforseta birtist að minnsta kosti í þrígang í tölvupóstsamskiptum bandaríska kynferðisbortamannsins Jeffrey Epsteins. Demókratar í eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings birtu tölvupóstsamskipti Epsteins í morgun. Þingmennirnir segja tölvupóstana fengna úr dánarbúi Epsteins. Afrit af þeim voru birt á samfélagsmiðlum og þar er minnst á Trump í nokkur skipti og Ghislaine Maxwell, vinkonu Epsteins sem var dæmd fyrir aðild að glæpum hans. Nefndin segist nú yfirfara alls 23.000 skjöl frá dánarbúi Epsteins. „Varði klukkustundum með honum“ Þingmennirnir segja að í póstsamskiptum frá 2011 hafi Epstein sagt Maxwell frá því að Trump hefði varið klukkustundum með einu fórnarlamba Epsteins á heimili hans. „Ég vil að þú áttir þig á því að hundurinn sem ekki hefur gelt er Trump. [Nafn fórnarlambs] varði klukkustundum heima hjá mér með honum. Hans nafn hefur aldrei borið á góma,“ segir í póstinum sem Epstein sendi Maxwell. „Ég hef verið að hugsa um það...“ svaraði Maxwell. Í öðrum pósti segir Epstein „Auðvitað vissi hann af stúlkunum því hann bað Ghislaine um að hætta.“ Mikið hefur verið deilt um birtingu hinna svokölluðu Epstein-skjala. Trump og Epstein voru í það minnsta kunningjar á tíunda áratugnum en Trump segir þá ekki hafa verið í neinum samskiptum frá 2004 – tveimur árum áður en Epstein var handtekinn í fyrsta sinn. „Ófrægingarherferð Demókrata“ Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Karoline Leavitt, segir birtingu tölvupóstanna vera hluta af ófrægingarherferð Demókrata gegn Trump. Þingmenn Demókrata reyni með þessu að dreifa falsfréttum um forsetann. „Þessar sögur eru ekkert annað en tilraunir til að draga athygli frá sögulegum afrekum Trumps forseta. Hver Bandaríkjamaður sem býr yfir almennri skynsemi sér í gegnum þetta,“ sagði Leavitt. Hún segir Trump ekki tengjast neinum brotum. Að sögn Hvíta hússins er Virginia Giuffre sú sem minnst er á í tölvupósti Epsteins til Maxwell. Hún svipti sig lífi í vor en sjálfsævisaga hennar var gefin út í haust. Þar er fjallað um kynferðisbrot Epsteins og fleiri sem brutu gegn henni og öðrum. Í yfirlýsingunni segir að Trump hafi verið vinalegur við Giuffre. „Staðreyndin er sú að Trump forseti vísaði Epstein úr klúbbi sínum fyrir áratugum síðan fyrir að haga sér ósæmilega gagnvart kvenkyns starfsfólki, þar á meðal Giuffre. Í umfjöllun New York Times í sumar kom fram að Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefði upplýst Trump um að nafn hans væri að finna í Epstein-skjölum. Trump hefur neitað því að vita nokkuð um glæpi Epsteins og hefur ekki verið sakaður um brot í tengslum við Epstein-málið. Hann hefur sagt allar ásakanir á hendur sér í tengslum við Epstein vera gabb úr smíðum Demókrata. Varadómsmálaráðherra Bandaríkjanna ræddi við Maxwell í júlí og þá sagðist hún ekki hafa séð Trump haga sér með óviðeigandi hætti.