Rannsókn lögreglu á kynferðisbroti gegn barni á grunnskólaaldri í Hafnarfirði er á lokastigi. Þetta staðfestir Bylgja Baldursdóttir, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn er grunaður um að hafa farið inn á heimili fjölskyldu í Hafnarfirði að næturlagi og brotið á ungum dreng í svefnherbergi hans. Bylgja býst við því að málið verði sent til ákærusviðs lögreglu von bráðar, þar sem afstaða verður tekin til þess hvort maðurinn verði ákærður. Rannsókninni sé nánast lokið en lögregla bíði enn niðurstaðna úr DNA-prófi, sem geti tekið sinn tíma. Fréttastofa greindi frá því í september að lögregla hefði handtekið karlmann í tengslum við málið en honum sleppt úr haldi skömmu síðar. Foreldrar drengsins hafa síðan stigið fram nafnlaust og greint frá atvikum kvöldsins. Drengurinn hafi lýst því hvernig maðurinn hafi komið inn í svefnherbergið hans og brotið á honum meðan yngri bróðir hans svaf í næsta rúmi. Hann hafi haldið á brott en reynt að komast aftur inn síðar um nóttina en foreldrarnir náð að fæla hann burt.