„Þeir bjóða peninga fyrir að drepa fólk og nota börn“

Færst hefur í vöxt að alþjóðlegir glæpahópar, sem látið hafa til sín taka í álfunni, hafi tengsl og jafnvel útsendara hér á landi. Þetta segir framkvæmdastjóri Europol. Samstarf og miðlun upplýsinga evrópskra löggæsluaðila eru lykilþáttur í að efla varnir og uppræta hópana. Þeir herja í auknum mæli á ungt fólk og jafnvel 9 ára börn. Ógnir stóraukist á skömmum tíma Framkvæmdastjóri Europol segir fjölþáttaógn og skipulagða starfsemi glæpahópa hafa stóraukist í álfunni á skömmum tíma. Lögreglan hér þurfi liðsafla til að mæta auknu álagi og stærri verkefnum í samstarfi sínu við önnur ríki. „Þess vegna er mikilvægt að lönd eins og Ísland, sem standa frammi fyrir aukinni hættu af njósnadrónum, standa frammi fyrir skemmdarverkum í formi netárása á opinbera innviði o.fl. séu í virku samstarfi við löggæsluna í öðrum Evrópuríkjum. Þannig fáum við skýrari mynd af ástandinu og hættunni sem af þessu öllu stafar,“ segir Catherine De Bolle, framkvæmdastjóri Europol. Hversu mikilvægt er hlutverk Íslands í víðtækara neti Europol við að takast á við þetta? „Það er mjög mikilvægt að við fáum upplýsingar um skipulagða glæpi, netglæpi á Íslandi og tengsl við möguleg hryðjuverk vegna þess að Europol er upplýsingamiðstöð ESB um glæpi.“ Glæpahóparnir jafnvel með útsendara hér á landi Upplýsingar Europol sýni að alþjóðlegir glæpahópar hafi tengsl við Ísland. „Ísland deilir gögnum með okkur og í 30% tilfella höfum við alþjóðleg tengsl. Þess vegna er mjög mikilvægt að við kortleggjum þessi tengsl og lokum glufum í kerfinu svo glæpagengi greini þær ekki og nýti sér,“ segir Catherine De Bolle. Færst hefur í vöxt að hóparnir fái ungt fólk og jafnvel börn til liðs við sig í gegnum spjallrásir ofbeldisfullra tölvuleikja. „Þeir nota ungt fólk. Þeir bjóða peninga fyrir að fremja glæpi. Þeir bjóða peninga fyrir að drepa fólk. Við höfum dæmi þar sem þeir bjóða ungmennum allt að 20 þúsund evrur fyrir að fremja morð, þeir bjóða ungmennum peninga til að tryggja að þau pynti aðra glæpamenn og svíkja svo um greiðslur fyrir glæpinn. Við höfum dæmi um börn níu ára sem fremja hræðilega glæpi,“ segir Catherine De Bolle.