Mygla, pollur og klístrað gólf í skýrslu um Alvotech

Klístur, mygla og pollur er meðal þess sem matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna, FDA, gerði athugasemd við í úttekt á verksmiðju lyfjafyrirtækisins Alvotech í sumar. Virði hlutabréfa í Alvotech hrundi eftir að FDA hafnaði markaðsleyfisumsókn fyrirtækisins. FDA hafnaði nýverið umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir líftæknilyfið AVT05 – sem er hliðstæða lyfsins Simponi, sem notað er við ýmsum bólgusjúkdómum. Í skýrslu FDA segir að við úttektina í sumar hafi gólf á tilteknu svæði í verksmiðjunni verið klístrað. Undir tanki hafi verið pollur og brak hafi einnig fundist á gólfi. Í skýrslunni, sem Vísir sagði frá fyrstur íslenskra miðla, segir að mygla og þráðlaga sveppur hafi endurtekið greinst í verksmiðju fyrirtækisins árin 2023 og 2024. Ellefu slík tilvik hafi verið metin einangruð tilvik og rannsókn lokað en nýlega hafi fjórtán aðrar verið hafnar. Við lok úttektar FDA hafi nokkrar þeirra enn verið í vinnslu. Í tilkynningu Alvotech í byrjun mánaðar kom fram að FDA gæti ekki veitt leyfi fyrr en félagið hefði brugðist við athugasemdum með fullnægjandi hætti. Verð hlutabréfa í Alvotech hrundi í kjölfarið. Það lækkaði um 28 prósent á einum degi en hefur hækkað örlítið að nýju eftir síðastliðna viku.