Lífskjör fatlaðs fólks muni batna, en gæti kostað sveitarfélög að fara eftir lögunum

Rúnar Björn segir það tímamót að samningurinn skuli nú loks lögfestur á Íslandi, og bindur vonir við að það verði hvatning fyrir önnur lönd að lögbinda hann. Til lengri tíma muni þetta hafa mikla þýðingu fyrir daglegt líf fólks, og sérstaklega í dómsmálum, þar sem nú verði að taka tillit til ákvæða samningsins. „Ég vil benda á að þetta þýði ekki bara aðeins betri félagsþjónusta fyrir fatlað fólk, heldur snýst þetta um svo miklu miklu meira. Þetta snýst um aðgengi, þetta snýst um vinnumál, skólamál, fjölskyldulíf fatlaðs fólks,“ segir Rúnar Björn. „Það hafa tapast mál um aðgengismál á Íslandi, en nú munu kannski dómarar hafa betri leiðbeiningar, sem geta nú unnist þegar aðgengi er ábótavant, eins og til dæmis á opinberum byggingum. Þá hafa dómarar nú skýrar leiðbeiningar um hvað eru réttindi fatlaðs fólks.“ Rúnar telur að það hafi skipt sköpum að Ísland skuli nú lögfesta samninginn, að tveir ráðherrar í ríkisstjórn þekki málaflokkinn af eigin raun. „Við verðum að koma að ákvarðanatökum um okkar mál, og það er klárt mál þarna hvað það skiptir miklu máli að þeir sem um málið varða séu með í ráðum. Ég vona að við sjáum líka bara í fleiri flokkum að fatlað fólk nái framgangi í þeim flokkum og að fleiri fatlað fólk sitji á alþingi og í sveitastjórnum,“ segir hann. Lögfestingu samningsins gæti fylgt meiri kostnaður fyrir sveitarfélög, því nú komast þau ekki undan að framfylgja ákvæðum samningsins. „Þau verða nú að fara eftir lögunum sem eru skýr, og það gæti verið meiri kostnaður fólginn í því, að fylgja lögunum,“ segir Rúnar Björn. Rúnar Björn Herrera Þorkelsson lamaðist í slysi fyrir 22 árum. Hann er viss um að lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks á Íslandi muni bæta lífskjör þess til lengri tíma, og vonar að það verði hvatning fyrir önnur lönd.