ÍR vann toppslaginn - FH skoraði 45 mörk

Einn leikur var á dagskrá Olísdeild karla í dag og einn í Olísdeild kvenna. FH vann stórsigur á KA í karladeildinni, 45-32. FH tók strax forystuna og leikurinn varð í raun aldrei spennandi. Átta mörkum munaði í hálfleik, 22-14, og Akureyringar náðu ekki að gera alvöru atlögu að því að jafna í þeim seinni. KA er þó enn fyrir ofan FH í deildinni, í þriðja sæti með 12 stig en Hafnfirðingar í fimmta sæti með 11 stig. Staðan í Olísdeild karla . Tvö efstu lið Olísdeildar kvenna mættust svo á Hlíðarenda, Valur og ÍR, þar sem ÍR vann, 24-25. Gestirnir byrjuðu betur og komust í 1-5 en Valur jafnaði í stöðunni 6-6. Eftir það var leikurinn í járnum en ÍR var yfir í hálfleik, 11-12. ÍR-ingar voru skrefinu framar lengst af í seinni hálfleik og náðu þriggja marka mun. Valur komst hins vegar yfir, 22-21, þegar rétt rúmar fimm mínútur lifðu leiks. Lokamínúturnar voru æsispennandi. Thea Imani Sturludóttir jafnaði fyrir Val þegar 12 sekúndur voru eftir en hindraði svo hraða miðju ÍR-inga og fékk að líta rautt spjald auk þess sem Breiðhyltingar fengu vítakast. Úr því skoraði Sara Dögg Hjaltadóttir. Þóra Anna Ásgeirsdóttir fékk tækifæri til að jafna aftur en það gekk ekki og ÍR vann dramatískan sigur, 24-25. Liðin eru nú jöfn á toppi deildarinnar með 14 stig, Valur þó með betri markatölu. Staðan í Olísdeild kvenna .