Braust úr einmannaleika með aðstoð sánu og tónlistar

Stefán Þór Þorgeirsson, leikari, kláraði verkfræði, fór svo yfir í leiklist og flutti svo frá Reykjavík til Japan til að iðka leiklistina. Um dvölina í Japan samdi hann leikverkið Lífið í Japan sem nú er sýnt í Hannesarholti. „Ég er að draga eftir tvö ár saman mína upplifun af Japan, mína upplifun af því að vera leikari í Japan en líka bara mína upplifun af því hvernig ég sjálfur varð fyrir menningarsjokki og þurfti að takast á við það og komast í gegnum það.“ Hann segist hafa unnið úr einmannaleikanum með því að semja tónlist og lýsa aðstæðunum eins og þær eru. „Ég og kötturinn vorum einir heima og það var líka einhver svona leið fyrir mig að vinna á einmannaleikanum og lýsa aðstæðum eins og þær eru skilurðu - ég er bara heima að gera pasta og það er túnfiskur í því.“