Land við Öskju hefur risið um nærri einn metra á rúmum fimm árum

Fyrir fáum dögum varð jarðskjálfti í Öskju 3,5 að stærð og þótt það séu kannski ekki fréttir að jarðskjálfti mælist í Öskju, þá eru svo stórir skjálftar ekki algengir þar. „Ekkert mjög algengir en þeir eru ekkert einstakir. Það gerist alveg annað slagið að það verða svona skjálftar þarna en þeir eru alls ekki algengir,“ segir Benedikt G. Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands. Geta verið margar ástæður fyrir svo stórum jarðskjálfta Hann segir ekkert hægt að lesa eitthvað sérstaklega í þennan skjálfta. „Nei það getur verið erfitt að lesa eitthvað í einstaka skjálfta. Það eru margar ástæður sem geta verið fyrir þeim og erfitt erfitt að túlka svona einstaka atburði, sérstaklega í ljósi þess að þetta gerist annað slagið. Það er erfitt að alla vega að tengja þetta beint við landrisið og kvikusöfnunina undanfarið en það er að sjálfsögðu ekki útilokað.“ Það eru rúm fimm ár síðan Askja vaknaði, ef svo má segja. Í áratugi seig land við Öskju, en það snerist við sumarið 2022 og síðan þá hefur land risið hratt. „Já, alla vega frá því 1976 þegar menn fóru aftur að mæla landbreytingar í Öskju, þá var bara stöðugt sig þangað til núna. Það er 2021 sem við sjáum þess merki um að það fer að vera landris og það var talsvert hratt í upphafi og alveg þangað til á miðju ári ´23 þá fór að hægja á því. Það hægðist talsvert á því en það var bara stöðugt samt eftir það og það hefur verið viðvarandi landris síðan, ekki með miklum breytingum. „ Hvað er þetta mikið landris? “ „Þetta er alveg hátt í metra í lóðrétta færslu,“ segir Benedikt. „Eins og staðan er núna sjáum við engin merki um að neitt sé yfirvofandi“ Jarðfræðingar meta það sem svo að landrisið sé vegna kviku sem flæðir undir Öskju á þriggja til fimm kílómetra dýpi og þrýsti jarðskorpunni upp á við. Það séu vissulega aðrar mögulegar ástæður, en þetta er talin langlíklegasta skýringin. „Við aftur á móti höfum ekki séð til dæmis verulegar breytingar á jarðhitakerfinu þannig að þetta virðist ekki vera að nálgast neitt yfirborð eða vera farið að hafa veruleg áhrif á efri part jarðskorpunnar þar sem jarðhitavirkni er. Þannig að alla vega enn þá erum við ekki sjá neitt slíkt. En það er oft kemur seinna.“ Það er rúmt ár síðan Spegillinn talaði síðast við Benedikt um Öskju. Þá sagði hann allt þetta skýr merki um að þar gæti aftur farið að gjósa, en það væri hins vegar ekkert hægt að segja til um hvenær. „Við höfum í rauninni engir engar aðferðir til að spá neitt fyrir um það, bara með þessa virkni og í rauninni gætum við bara verið að sjá eitthvað tímabundið ferli sem hættir svo í langan tíma. En svo líka getur þetta tekið sig upp á morgun þess vegna og við fáum mikla skjálftavirkni og meiri aflögun og eitthvað gerist á stuttum tíma. En en eins og staðan er núna sjáum við engin merki um að neitt sé yfirvofandi. Þar sem við gerum núna er bara að fylgjast með og svo láta vita ef það verða breytingar.“ Land við Öskju hefur risið um nærri einn metra frá því landris hófst á ný við eldstöðina fyrir rúmum fimm árum. Haldi þessi þróun áfram gæti endað með eldgosi, segir jarðfræðingur, en svo gæti allt dottið í dúnalogn og ekkert gerst. Það er mjög þétt mælanet í Öskju sem hefur verið sett þar upp undanfarin misseri. Því er hægt að fylgjast mjög náið með þróuninni þar. „Já, já, við erum með Öskju vel vaktaða, það er alveg óhætt að segja það. En það er alltaf aðeins erfitt að reka þetta net á veturna upp á miðju hálendinu þannig að það eru alveg gloppur í því stundum. En á sumrin þegar er túristaumferð þarna, þá erum við með hana alveg mjög vel vaktaða.“ Erfitt að segja til um hvað Askja þolir mikla þenslu áður en jarðskorpan brestur Síðast gaus í Öskju árið 1961 - allstórt hraungos sem varði í fimm til sex vikur. Þá myndaðist gígaröðin Vikraborgir og Vikrahraun rann niður á sléttlendið austan við Öskju. Fyrir þetta gos voru engar mælingar á landrisi og því er sáralítil þekking á breytingum í eldstöðinni áður en gaus ´61. Því er erfitt að segja til um hvað Askja þolir mikla þenslu áður en jarðskorpan brestur og fer að gjósa. „Og það var talsvert landris í kjölfarið á því, alveg fram til '72, þá held ég að hafi verið síðasta mælingin. Svo varð aðeins pása á þessum mælingum í Kröflueldum en svo eftir Kröfluelda þegar menn fóru að mæla þarna aftur þá sáu menn að landrisið var hætt og það var farið að síga, þannig að það er í rauninni það eina sem við höfum.“ „Þannig að þið vitið ekki hvað Askja þolir?“ „Nei, við vitum það ekki og það getur verið miklu meira áður en eitthvað er að gerast. Við höfum í rauninni enga hugmynd um það.“