Repúblikanar í eftirlitsnefnd Bandaríkjaþings hafa birt yfir 20 þúsund skjöl sem dánarbú kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein lét af hendi fyrr á árinu. Þingmennirnir og Donald Trump forseti sjálfur segja að Demókratar í nefndinni hafi viljað ata hann auri með birtingu þriggja tölvupósta þar sem nafns hans er getið. Því hafi þeir ákveðið að birta lungann úr skjölunum, sem bandarískir miðlar eru nú að yfirfara. Þingmennirnir segja að í póstsamskiptum frá 2011 hafi Epstein sagt Ghislaine Maxwell frá því að Trump hefði varið klukkustundum með einu fórnarlamba Epsteins á heimili hans. Trump kemur viðar við sögu í tölvupóstum Epsteins. Hann er sagður hafa boðið Rússum leiðbeiningar um hvernig best væri að ræða við forsetann. „Þú getur laumað því að Pútín að Lavrov geti fengið innsýn í hugarheim Trumps með því að tala við mig,“ segir í tölvupósti frá 2018 til Thorbjørns Jagland, þáverandi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Þar segist Epstein einnig hafa gefið Vitaly Churkin, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, upplýsingar um Trump. Andrew Mountbatten Windsor, fyrrverandi Bretaprins, bað Epstein um að halda nafni sínu utan allra dómskjala. Þetta kemur fram í tölvupósti frá í mars 2011 þar sem prinsinn fyrrverandi biður Epstein um að segja yfirvöldum að hann hafi ekki átt nokkurn þátt í misnotkun Virginiu Guiffre. Hann viti ekkert hvað gerðist og þoli ekki lengur ásakanir um að hafa brotið gegn henni.