Norskir ráðamenn vilja ekki einir tryggja lán til Úkraínu

Norski forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre sagði á þingfundi í gær útilokað að bjóðast til að nota eftirlaunasjóð Noregs til að tryggja aðgerðir sem enn eru til umræðu. Mikilvægt sé að fjárfestingar olíusjóðsins séu öruggar. Fjármálaráðherrann Jens Stoltenberg segir af og frá að Noregur einn gangist í ábyrgð fyrir láninu en útilokar ekki einhverja aðkomu, réttast sé að bíða niðurstöðu Evrópusambandsins. Tveir norskir hagfræðingar, Havard Halland og Knut Anton, stungu upp á ábyrgð Noregs í október þrátt fyrir að landið sé ekki í Evrópusambandinu. Þeir bentu á að Noregur hefði hagnast um 109 milljarða evra aukalega vegna verðhækkana á olíu og gasi til ríkja í Vestur-Evrópu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Noregur væri í raun stríðsgróðaland sem hefði svo gott lánstraust að það gæti hæglega tryggt lánið án þess að skaða orðspor sitt nokkuð. Með láninu eiga Úkraínumenn að geta tryggt fé til borgaralegra og hernaðarlegra framkvæmda næstu tvö ár. Framkvæmdastjórn ESB hefur í hyggju að nýta rússneskt fé sem evrópskir bankar frystu eftir innrásina. Úkraínumenn þurfa ekki að endurgreiða lánið nema Rússar verði látnir greiða stríðsskaðabætur. Megnið af rússneska fénu er fryst hjá alþjóðlega fjárfestingarbankanum Euroclear sem hefur aðsetur í Belgíu og þarlend stjórnvöld hafa lýst efasemdum um lánveitinguna af ótta við hefndaraðgerðir Rússa.