Saksóknarar í Þýskalandi segja lögreglu hafa handtekið einn mann til viðbótar, grunaðan um að tilheyra deild innan Hamas-hreyfingarinnar sem hugðist ráðast með ofbeldi gegn Ísraelsmönnum og stofnunum gyðinga í landinu. Hann var handtekinn seint á þriðjudaginn þegar hann kom til Þýskalands frá Tékklandi. Maðurinn hefur verið nafngreindur sem Borhan El-K og er sagður hafa sankað að sér vopnum, sjálfvirkum riffli, skammbyssum og skotfærum í ágúst og afhent þau öðrum manni, grunuðum í málinu. Sá er nafngreindur sem Wael F. og er einn þriggja sem voru handteknir í Berlín í október grunaðir um útvegun skotvopna og skotfæra. Einn maður til viðbótar var handtekinn í Lundúnum í síðustu viku og danska lögreglan gerði húsleitir í Kaupmannahöfn og nágrenni í tengslum við rannsóknina að beiðni þeirrar þýsku. Hamas þvertekur fyrir að eiga nokkra aðild að ráðabrugginu.