Sérstakur erindreki Bandaríkjaforseta má búast við köldum viðtökum

„Allar ákvarðanir um framtíð Grænlands eru í höndum þarlendra stjórnvalda.“ Þetta áréttaði Jens-Frederik Nielsen, formaður landsstjórnarinnar, í langri færslu á samfélagsmiðlum eftir að Donald Trump ítrekaði að Bandaríkin þörfnuðust Grænlands af öryggisástæðum. Nielsen sagði Grænland meira virði en að vera bitbein í deilum um öryggi og völd, þannig sjái landsmenn sig ekki. Hann þakkaði landsmönnum fyrir að taka orðum Trumps með reisn og ró og öðrum leiðtogum fyrir stuðninginn. „Við erum greinilega ekki ein á báti,“ sagði Nielsen. DR fjallaði um málið. Donald Trump hefur skipað Jeff Landry ríkisstjóra Louisiana sérstakan sendifulltrúa sinn í málefnum Grænlands. Sá hét því umsvifalaust að sölsa Grænland undir Bandaríkin og það vakti reiði danskra yfirvalda sem kölluðu sendiherra landsins á teppið. „Það markmið Landrys veldur því að hann getur ekki búist við miklum fagnaðarlátum láti hann sjá sig,“ segir Aaja Chemnitz Larsen, þingmaður IA á danska þinginu. Þótt Grænlendingar séu almennt gestrisnir megi Landry búast við hörðum mótmælum. Margir séu reiðir vegna þrýstings Bandaríkjanna. Grænlendingurinn Orla Joelsen skipulagði fjölmenn mótmæli í mars þar sem Trump var gert ljóst að Grænland væri ekki til sölu. Hann áréttar í færslu á samfélagsmiðlum að Landry beri að virða sjálfsákvörðunarrétt og stöðu landsins gagnvart Danmörku. Ákvörðun um sjálfstæði verði tekin eftir samningaviðræður þeirra í milli en ekki af Bandaríkjastjórn.