Aldurinn helsta ástæða þess að Bubbi heldur ekki tónleika á Litla-Hrauni í ár

Bubbi Morthens verður ekki með aðfangadagstónleika á Litla-Hrauni þetta árið líkt og nánast óslitið frá árinu 1982. Hann þurfti að sleppa tónleikahaldi í kórónuveirufaraldrinum og einu sinni vegna veðurs. Í viðtali við Morgunblaðið segir Bubbi aldur sinn meginástæðuna en nefnir jafnframt hve margir útlendingar séu orðnir meðal fanga á Litla-Hrauni, um og yfir helmingur jafnvel. Það hafi gert ákvörðunina auðveldari, þeir þekki hvorki tónlist hans né textana. „Ég hef auðvitað séð þetta ár frá ári en þegar kominn er helmingur, jafnvel meira en helmingur, af fólki sem talar ekki og skilur ekki íslensku þá er orðið erfitt að skila því sem mann langar að skila svo þetta var tvíþætt ástæða, að minnsta kosti,“ segir Bubbi. Tónlistarmaðurinn segir þó að auðvitað væri gustukaverk að reyna að létta þeim daginn líkt og innlendum föngum. Bubbi verður sjötugur í júní og hefur gefið út tónlist frá því Ísbjarnarblús kom 17. júní 1980. „Aðalástæðan er nú sú að ég er kominn á þann stað að ég er að eldast og ég er kannski farinn að sofa klukkan fjögur-fimm á aðfangadagsmorgun og hef svo þurft að vakna þremur tímum seinna til að smala saman öllu til að fara á Litla-Hraun.“ Bubbi segir stjórnendur fangelsisins hafa sýnt ákvörðun hans fullan skilning, sem líklega sé endanleg. Hann hélt árlega Þorláksmessutónleika sína í gær og sagðist í vikunni stefna á að halda þá í 20 ár í viðbót.