„KR er langstærsti klúbburinn á Íslandi“

Fótboltakappinn Arnór Ingvi Traustason er genginn til liðs við KR í efstu deild karla. Koma Arnórs heim bar hratt að og segir hann Vesturbæjarliðið langstærsta klúbb á landinu. Arnór ræðir samtöl við Óskar Hrafn, „pressu“ tengdafjölskyldunnar, sögusagnir um Keflavík og þyngsli KR treyjunnar. „Tilfinningin er mjög góð. Ég er rosalega peppaður að fá að byrja. Ég er búinn að tala við þau sem eru mér næst og mér líður ekkert eins og ég sé að fara heim. Mér líður bara eins og ég sé að fara í næsta verkefni og það er stórt verkefni fyrir framan mig,“ sagði Arnór. Bar hratt að Arnór lék síðast með Norrköping í Svíþjóð og var þar fyrirliði. Liðið féll nokkuð óvænt og heimkoma Arnórs bar hratt að. Hann sagði ýmsa möguleika hafa verið í stöðunni en að samtal við Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfara KR hafi breytt öllu. „Það voru aðrir möguleikar í stöðunni en þetta gerðist fljótt. Ég sjálfur var ótrúlega spenntur fyrir þessu, að fá að spila fyrir KR og komast í KR. Mig langaði til þess eftir öll samtölin við Óskar og Indriða Sigurðsson og fleiri.“ Það var ekki hugsunin fyrir mánuði síðan að þetta yrði lendingin. Svo ákváðum við bara að kýla á þetta. Við tökum þessu með opnum hug og jákvæðninni. Þetta verður geðveikt.“ Engin pressa en tengdafjölskyldan sátt Það má segja að Arnór sé giftur inn í KR. Maki Arnórs er Vesturbæingurinn Andrea Röfn Jónasdóttir en faðir hennar Jónas Kristinsson, var framkvæmdastjóri KR í fjölda ára. Þá er Rúnar Kristinsson náfrændi Andreu. Hann fann ekki fyrir neinni pressu en segist spenntur fyrir áskoruninni að spila með KR. Félagið sé það stærsta á landinu, með skemmtilegustu söguna og því fylgir pressa. „Þau eru sátt með mig. En þau voru ekkert að pressa á mig eða neitt svoleiðis. Að ég færi heim þyrfti ég að fara í KR. En að sama skapi er ég búinn að vera mikið inni í þessari fjölskyldu og uppi í KR. En KR er fyrir mér langstærsti klúbburinn á Íslandi. Liðið hefur langskemmtilegustu söguna. Það er pressa að spila fyrir KR og það eru þyngsli í treyjunni. Það er gaman að vera í svoleiðis liði.“ Keflavík í raun aldrei í myndinni Arnór lék með Keflavík áður en hann hélt út en hann fór að hluta til í gegnum yngri flokka Njarðvíkur. Hann segir sögusagnir um endurkomu í Keflavík ekki hafa verið sannar. „Það var aldrei neitt þannig. Ég heyrði í Halla Guðmunds sem er félagi minn og við þekkjumst þokkalega vel. Ég heyrði í honum fyrir nokkuð löngum tíma. Hann var að heyra í mér hljóðið og hvernig hugur minn væri.“ „Á þeim tíma var þetta ekki komið langt hjá neinum og við vorum ekkert að hugsa um að koma heim þá. En svo hef ég ekkert heyrt meira frá þeim, þó svo að það væru sögusagnir um að við værum nálægt hvort öðru. Hvort ég væri á leiðinni í Keflavík. En meira var það ekki en eitt smá símtal við Halla.“ Á nóg eftir Arnór skrifar undir þriggja ára samning og er 32 ára gamall. Hann hélt út í atvinnumennsku árið 2013 og hefur síðan leikið fyrir fimm lið í fjórum löndum. Hann var á mála hjá Rapid Wien, New England Revolution, Malmö, AEK Aþenu og Norrköping. Auk þess á hann 67 landsleiki og hefur skorað sex mörk. Hann ætlar sér stóra hluti með KR. „Ég er kominn heim til að vera stór leikmaður fyrir þetta félag, bæði innan sem utan vallar. Ég á fullt að gefa og á nóg eftir. Ég byrja á þessum þremur árum svo tökum við stöðuna eftir það. Ef mér líður vel þá held ég áfram að hjálpa og vera til staðar fyrir KR.“ Lítur ekki á KR sem fallbaráttulið KR átti nokkuð erfitt uppdráttar á síðasta tímabili. Liðið tryggði sæti sitt í Bestu deild í lokaleik tímabilsins. Þrátt fyrir það lítur Arnór ekki á KR sem fallbaráttulið. Hann sjálfur hefur reynslu af því hvernig viðsnúningur getur orðið milli tímabila. „Alveg 100% ekki. Ég sjálfur hef reynslu af því að vera í svoleiðis stöðu, árið 2014 með Norrköping. Við vorum nálægt því að falla. Það er þessi reynsla sem þessir ungu leikmenn fengu og búa að núna. Þeir búa að þessari reynslu sem þeir voru ekki með fyrir síðasta tímabil. Að spila í efstu deild og spila fyrir KR á hæsta stigi.“ „Þeir geta tekið það með sér í þetta tímabil núna og byggt ofan á það. Við unnum sænsku deildina árið eftir, árið 2015. Ég er ekki að segja að við ætlum að fara að vinna Íslandsmeistaratitilinn. En að sama skapi býrðu yfir ótrúlega mikilli reynslu sem þú tekur inn á næsta tímabil. Ég kem líka að borðinu með hellings hluti, mína hæfileika og leiðtogahæfileika, sem ég vona að nýtist vel,“ bætti Arnór við. Evrópa kallar Arnór hefur fylgst með deildinni úr fjarska síðustu 12 ár en segir hana alltaf verða sterkari. Hann dreymir um Evrópuævintýri með KR. „Deildin er alltaf að verða sterkari og sterkari. Það sést líka á því hvað Víkingur og Breiðablik eru að gera í Evrópu, sem er geðveikt. Það er geggjað fyrir deildina og Ísland, að koma Íslandi á kortið, byggja upp þessa deild og gera hana enn þá sterkari. Ég held að það sé markmið allra að komast út í Evrópu og fá skerf af Evrópufénu. Fleiri lið munu gera það á næstu árum,“ sagði Arnór að lokum.