Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur hvetur landsmenn til að taka mark á viðvörunum sem hafa verið gefnar út vegna sunnan hvassviðris sem gengur yfir landið í dag. Hvassast verður á norðanverðu landinu en hitamet gætu fallið norðan- og austanlands. Gular eða appelsínugular viðvaranir verða í gildi víðast hvar um landið fram að hádegi á morgun og segir Kristín mikilvægt að fólk fari varlega. „Þegar við erum komin upp í appelsínugula viðvörun, þá erum við farin að tala um að lausamunir, jafnvel þakplötur og annað, það sem er óvarið eða vindurinn nær að grípa í og taka með sér, það getur fokið,“ segir Kristín á Morgunvaktinni á Rás 1. Einnig er varað við skriðuföllum og flóðum vegna mikillar úrkomu á sunnan- og vestanverðu landinu. Kristín segir að mesta rigningin hingað til hafi mælst á Grundarfirði. Úrkoma þar mældist 133 millimetrar síðasta sólarhringinn, 78 millimetrar á Ólafsvík, 43 millimetrar á Bíldudal en aðeins 12 millimetrar í Reykjavík. „Þessar rigningar, það náttúrulega safnast í læki og ár og getur gripið með sér jarðveg þegar þetta er á leiðinni til sjávar.“ Mikil hlýindi á norðaustanverðu landinu Vegir séu að öllum líkindum auðir sökum hlýinda en Kristín segir varasamt að vera á verðinni vegna hvassviðris. „Vegirnir eru auðir en vindurinn getur alveg gripið í bíla og sérstaklega stóra bíla og aftanívagna. Þannig að það er ekki gott að vera mikið á ferðinni.“ Veðurspáin gerir ráð fyrir að hitastig verði yfir frostmarki um allt land og segir Kristín að hitamet gætu fallið á norðan- og austanverðu landinu. „Jólin í fyrra, þá vorum við í kringum frostmark og rétt undir því. Þannig að frá einu ári til annars þá er búið að hlýna mikið og mér sýnist, miðað við þetta, að við séum að stefna í einhver hitamet jafnvel einhvers staðar á Norður- og Austurlandi ef hitaspárnar okkar ganga eftir.“