Tíðar flugferðir Trumps um borð í þotu Epsteins í nýjum skjölum

Oftar er minnst á Donald Trump en áður í nýjustu Epstein-skjölunum, sem birt voru í gær. Hann á meðal annars að hafa flogið oftar með einkaþotu Epsteins en áður var talið. Enn stendur til að birta fleiri skjöl. Frestur dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna til að birta öll Epstein-skjölin rann út á föstudag. Þá var sægur skjala birtur, en þó ekki öll og töluvert mikið af upplýsingum höfðu verið máðar út, sem sætti gagnrýni. Athygli vakti að nafn Trumps var ekki fyrirferðamikið. Mörg þúsund skjöl voru svo birt til viðbótar í gærkvöld. Í einu skjali sem aðstoðarmaður saksóknara í New York undirritar , segir að Trump hafi flogið átta sinnum um borð í einkaþotu Epsteins árin 1993-96. Ghislaine Maxwell, kærasta og samverkamaður Epsteins, var sömuleiðis um borð í fjórum þeirra. Stundum voru Epstein og Trump þeir einu um borð og að minnsta kosti einu sinni var tvítug kona með þeim, nafn hverrar hefur verið afmáð. Saksóknari telur einnig að í tveimur flugferðum hafi konur verið um borð sem síðar gætu hafa borið vitni gegn Maxwell. Hún var dæmd fyrir nokkrum árum fyrir aðild að barnaníði kærastans. Umrætt skjal var undirbúið í tengslum við málssókn gegn henni. Trump og Epstein voru félagar á tíunda áratugnum en Trump segist hafa slitið vinskap við hann og sagt hann hafa verið ógeð. Segja má að birting Epstein-skjalanna hafi átt að skera úr um hvort þeir hafi verið nánari en Trump hefur látið í veðri vaka. Hingað til hefur engin bein sönnun um glæpsamlegt athæfi Trumps birst og í raun hefur gustað minna um Trump en margir ef til vill töldu. Trump-stjórnin sætir þó einna helst gagnrýni fyrir að hafa ekki birt öll Epstein-skjölin á tilskildum tíma og án þess að nokkuð sé afmáð. Enn stendur til að birta meira.