Illviðri stendur ekki í vegi fyrir helgihaldi – „Oft verið verra veður en þetta um hátíðina“

Aftansöngur og jóladagsmessur falla ekki niður á Norðurlandi þótt veðrið sé vont, segir Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum. Færðin sé mjög góð og hann hafi oft séð það verra þá áratugi sem hann hefur þjónað. Sunnan hvassviðri og stormur gengur yfir stóran hluta landsins í dag. Gular og appelsínugular viðvaranir verða í gildi víðast hvar fram að hádegi á morgun. „Eins og þetta er hér í Skagafirðinum þá er bara svona strekkingsvindur og tíu stiga hiti. Ég reikna með því að helgihaldið verði óbreytt því að það hefur nú oft verið verra veður en þetta um hátíðina,“ segir Gísli. „Þó að ég hafi verið [prestur] í áratugi þá man ég nú ekki eftir nema einu sinni sem þurfti að fella niður hér í Skagafirði út af veðri. En fólk er nú kannski líka orðið varara um sig svona í seinni tíð með veður eftir að þessar viðvaranir fóru að koma fram.“ Gísli segir að í kvöld sé gert ráð fyrir aftansöng í Skagafirðinum, til að mynda á Sauðárkróki og Löngumýri, og jólamessu á morgun í Hóladómkirkju, á Hofsósi og víðar.