Grindvíkingar láta hremmingar undanfarinna ára ekki á sig fá og halda jólin margir hverjir heima. Slökkviliðsstjórinn segir að það sé jólaandi í bænum og Grindvíkingi finnst gott að geta verið heima á jólunum í fyrsta sinn í tvö ár. Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, segir að fjölmargar fjölskyldur haldi jól heima, dvalið sé í um 110 húsum. „Ég er svo sem ekki með nákvæma tölu en þetta er sambærilegur íbúafjöldi og hefur verið upp á síðkastið. Menn munu halda sín jól hátíðlega í bænum og ábyggilega hafa það gott í góðu umhverfi.“ Viðbragðsaðilar séu á sólarhringsvakt eins og aðra daga og góður jólaandi í bænum sem er vel skreyttur þar sem blásið var til skreytingakeppni. „Þannig það er svona sannur jólaandi þegar fólk hugsar um náungann, stendur saman og gerir sér glaðan dag,“ segir Einar. Sigurbjörg Eyfeld Skúladóttir og fjölskylda hennar eru meðal þeirra Grindvíkinga sem halda jól í bænum. Fjölskyldan býr ekki í Grindavík dagsdaglega eftir jarðhræringarnar og hélt síðustu tvenn jól annars staðar, þar sem ekki kom til greina að halda þau í bænum. „Það var náttúrlega öðruvísi. Þá voru búnir að vera miklir jarðskjálftar, meira vesen og eldgos og svoleiðis.“ Eftir tvenn jól í bústaðnum var löngunin eftir jólum í Grindavík þó orðin sterk og Sigurbjörg segir fjölskylduna hæstánægða að vera komna heim. Ég get ekkert lýst því öðruvísi. Ég bara er heima.