Heldur færri ferðamenn verða hér á landi yfir jól og áramót heldur en í fyrra. Gistinóttum hefur fækkað og framboð flugsæta til landsins hefur dregist saman um allt að 12 prósent að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann segir þennan samdrátt vera áþreifanlegan og ýmsar viðvörunarbjöllur séu farnar að klingja. „Í bókunarstöðu núna og inn í næstu vikur og mánuði, þá erum við að tala um meiri niðursveiflu á hótelunum, og því meira sem lengra dregur frá höfuðborgarsvæðinu - því miður,“ segir Jóhannes. „Árstíðarsveiflan er aftur að aukast hjá okkur í fyrsta sinn í 10 ár, og það er verulega mikið áhyggjuefni, því við vitum að sumarið sér um sig sjálft, en við viljum að þetta sé heilsárs atvinnugrein.“ Samdráttar gætir í ferðaþjónustu og færri ferðamenn verða hér á landi yfir hátíðarnar heldur en í fyrra. Gistinóttum hefur fækkað og framboð flugsæta til landsins hefur dregist saman um allt að 12 prósent. Jóhannes segir að slaknað hafi á markaðssetningu hins opinbera undanfarin ár og það eigi stóran þátt í þessari breytingu. Fækkunin nái ekki aðeins nú yfir hátíðarnar, heldur sé það einnig staðan næstu mánuði. „Núna í janúar, febrúar og mars, erum við að sjá tölur í afþreyingarferðum þar sem bókunarstaðan er nokkrum tugum prósenta lægri heldur en hún var í fyrra,“ segir hann. Blikur á lofti í ferðaþjónustunni Bókunarstaða á hótelunum og í þeim gögnum sem ferðaþjónustan hafi, sýni nú á milli 5% og 15% fækkun eftir landshlutum. „Þetta er áhyggjuefni inn í næstu mánuði, að árstíðarsveiflan haldi áfram að aukast,“ segir Jóhannes. Þetta þýði að blikur séu á lofti að ferðaiðnaðurinn geti verið heilsársatvinnugrein um allt land, sem hafi alltaf verið stóra markmiðið. Markaðsetningin, eða vöntun á henni, spili stórt hlutverk í þessum samdrætti. „Inn í þetta blandast svo aðrar samkeppnisáskoranir eins og sterk staða íslensku krónunnar og veik staða norsku krónunnar, sem gerir Ísland enn dýrara heldur en Noreg á alþjóðamarkaði. Það er því meira freistandi fyrir ferðafólk á okkar helstu mörkuðum að velja kannski Noreg heldur í norðurljósaferðir og norðurslóðatúrisma.“