„Þeim tekst ekki að hernema eða sprengja það allra mikilvægasta“

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti flutti jólaávarp sitt til úkraínsku þjóðarinnar í gær eftir loftárásir Rússa á markað í Kherson. Hann sagði að Rússar hefðu enn og aftur sýnt sitt rétta andlit. „En þrátt fyrir öll vandkvæðin sem Rússar hafa valdið okkur tekst þeim ekki að hernema eða sprengja í loft upp það allra mikilvægasta, okkar úkraínska hjarta,“ sagði Zelensky. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Úkraínu hafa sent tillögu að friðaráætlun til stjórnvalda í Moskvu. Vopnahlé getur hafist um leið og Rússar samþykkja áætlunina. Hún er í 20 liðum og inniheldur ekki skilyrði um að Úkraína hafni aðild að NATÓ, líkt og Rússar hafa áður krafist.