Mazloum Abdi, leiðtogi Lýðræðissveita Sýrlands (SDF), hers kúrdíska sjálfsstjórnarsvæðisins í norður- og austurhluta landsins, segir allt vera lagt í sölurnar til að bjarga samkomulagi sem Kúrdar hafa gert við sýrlensku ríkisstjórnina í Damaskus. Abdi undirritaði samkomulag með Ahmed al-Sharaa, forseta bráðabirgðastjórnar Sýrlands, í mars um að aðlaga kúrdísku stjórnina og herinn að nýrri stjórn landsins fyrir árslok. Erfiðlega hefur hins vegar gengið að koma samkomulaginu til framkvæmdar, einkum vegna vafa um það hver staða Lýðræðissveitanna eigi að vera innan sýrlenska hersins. Tyrkir, sem eru mikilvægir bakhjarlar stjórnar Sharaa, vilja alls ekki að SDF hafi sérstöðu innan hersins eða stjórnsýslunnar vegna tengsla sveitanna við Verkalýðsflokk Kúrdistan (PKK). Abdi áréttaði áframhaldandi stuðning SDF við samkomulagið skömmu eftir að mannskæð átök brutust út milli hermanna stjórnarhersins og Lýðræðissveitanna í Aleppó. Hann sagði að samningsaðilar ættu í áframhaldandi viðræðum um samhæfingu heraflans og að samkomulaginu hefði ekki fylgt neinn lokafrestur.