Verk Sigurðar á 1.600 skiltum um alla Parísarborg

Verk Sigurðar Árna Sigurðssonar prýða um 1.600 skilti um alla Parísarborg. Á skiltinu er fólk hvatt til þess að heimsækja myndlistarsöfn borgarinnar um hátíðarnar. Parísarborg keypti verkið af Sigurði árið 1993 eftir fyrstu einkasýningu hans í borginni, síðan þá hefur verkið meðal annars prýtt veggi skrifstofu borgarstjóra Parísar. „Og þá kaupir Parísarborg þetta verk en þetta var sem sagt fyrsta málverkið sem ég seldi borginni.“ Fyrir nokkrum vikum var haft samband við Sigurð og hann spurður hvort borgin mætti nota verkið í auglýsingaherferð. Verkið er eitt fjögurra verka sem urðu fyrir valinu en hin verkin eru eftir franska listamenn. „Núna er verkið komið á einhver 1600 svona auglýsinga-flettiskilti um alla Parísarborg og verður fram að áramótum.“ Öðlast nýtt líf Sigurður segir það hafa verið sjálfsagt að verk hans yrði notað í herferðinni enda markmiðið að hvetja fólk til þess að fara á listasöfn og hann vitaskuld ánægður með það. Hann málaði verkið árið 1992 og segir það vera einfalt verk. „Grænn flötur með tveimur götum, þar sem sést í strigann aðeins, nema upp úr þessum götum koma kanínueyru.“ Verkið hefur ekki neitt formlegt nafn en Sigurður segir að það hafi alltaf verið kennt við „kanínuna“. Hann segir það auðvitað vera gaman að sjá málverk sitt á auglýsingaskiltum einnar af stærri borgum Evrópu en að eins sé skemmtilegt að sjá hvernig gamalt málverk getur öðlast nýtt líf. „En líka af því að þetta er gamalt verk hvernig einhvern veginn hvernig hlutir geta öðlast líf aftur, það er voða gaman að sjá það.“