Leikstjórinn lofar átakamiklu leikhúskvöldi

Þjóðleikhúsið frumsýnir leikverkið Óresteiu eftir ástralska leikskáldið Benedict Andrews í Kassanum í kvöld. Óresteia, þríleikur Æskýlosar, er rúmlega 2.500 ára gamalt verk og einn frægasti harmleikur fornbókmenntanna en Andrews hefur fært verkið í nútímalegri búning. Með hlutverk í sýningunni fara meðal annars þau Ebba Katrín Friðriksdóttir, Atli Rafn Sigurðsson, Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Hilmir Snær Guðnason. Benedict Andrews, leikstjórinn, segir áhorfendur geta átt von á átakamiklu leikhúskvöldi. Ný leikgerð af þríleik Æskýlosar, Óresteiu, er frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Leikstjórinn lofar áhorfendum innilegri reynslu en leiksýningin er rúmar fjórar klukkustundir. Smá sjokk að sjá þykktina á verkinu Óresteia fjallar um átök innan fjölskyldu og skelfilegar afleiðingar stríðs og blóðhefnda. Sýningin er rúmir fjórir klukkutímar í heildina en tvö hlé eru á henni. „Það var alveg smá sjokk að sjá þykktina á verkinu. En svo bara er þetta alltaf það sama, um leið og maður byrjar að grafa í textanum og þetta er ekki eitthvað bara sem maður er að horfa á heldur byrjar að vinna með, þá verður það auðveldara,“ segir Ebba Katrín sem fer með hlutverk Órestes. Atli Rafn Sigurðarson segist ekki hafa leikið í lengri sýningu sem þessari áður en að það sé mjög skemmtilegt að prófa það. „Ég get lofað að fólki mun ekki leiðast, og ef það er þannig getur það notað annað af tveimur hléum til þess að yfirgefa bygginguna. En fólk má treysta því að það er mikið fyrir augað, flottur texti, flottir leikarar og geggjuð tónlist. Flott leikmynd,“ segir Atli Rafn. Heimur sem er sundraður af ruglingi og innbyrðis átökum „Við drögum þennan elsta leikhústexta Vesturlanda með erfiðismunum inn í nútímann,“ segir Benedict Andrews. „Verkið dregur mynd af heimi sem ég tel líkjast okkar eigin. Heimi sem er sundraður af ruglingi og innbyrðis átökum.“ Andrews segir allt gerast í kringum leikhúsgestina, leikarar gangi fram hjá þeim og setjist jafnvel við hlið þeirra. „Leikhúsgestir mega búast við átakamiklu leikhúskvöldi, epísku kvöldi í leikhúsinu, en líka afar innilegri reynslu.“