Íslensk hjólreiðakona hrapaði sjö metra í Atlasfjöllunum en fær engar bætur

Íslensk kona sem slasaðist í fjallahjólaferð í Atlasfjöllum fyrir þremur árum fær engar bætur úr ábyrgðartryggingu ferðaskrifstofunnar sem seldi henni ferðina. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Konan hélt því fram að ferðin hefði verið miklu erfiðari en auglýst hafði verið og langt umfram það sem hæfði hennar getustigi. Ferðin var farin til Marokkó í október 2022. Hjólahópurinn var á leið um mjóan stíg niður bratta og grýtta fjallshlíð þegar konan ætlaði að stöðva hjólið til að stíga af því og reiða það. Þá skrikaði afturhjólið til og rann út af stígnum. Konan féll aftur á bak, „fram af fjallsbrúninni og niður um sjö metra í gegnum tré og stórgrýti uns hún hafnaði á klettasyllu“, eins og því er lýst í úrskurðinum. Við þetta hlaut hún áverka á lærum, höndum, hálsi og höfði og glímdi þar að auki við áfallastreitu á eftir. Brattur, mjór, grýttur og þurr stígur Konan hélt því fram í málatilbúnaði sínum að íslenskir fararstjórar á vegum fyrirtækisins hefðu sýnt af sér saknæmt gáleysi með því að undirbúa ferðina ekki nógu vel. Þeir hefðu meðal annars ekki farið leiðirnar sjálfir áður en farið var með óvant fólk í þær. Kvöldið fyrir slysið hafi verið tilkynnt um þá breytingu á dagskrá að allir hópar, óháð getustigi, ættu að hjóla sömu leið. Hún hafi verið fullvissuð um að erfiðleikastigið yrði aldrei meira en 3 af 5 mögulegum og að byrjendur gætu vel hjólað hana. „Hins vegar hafi komið í ljós að leiðin var afar erfið, vegurinn hafi verið mjög brattur og mjór, og einnig grýttur og þurr svo hætt var við því að hjól rynnu til.“ Hún fullyrti jafnframt að marokkóskur leiðsögumaður hefði eftir slysið tjáð henni og vinkonum hennar að leiðin væri af erfiðleikastigi 5 og aðeins ætluð mjög vönu hjólafólki. Tók sjálf ákvörðun um að reiða ekki hjólið Þetta er eitt af ýmsu sem deilt er um í málinu. Ferðaskrifstofan neitaði því að leiðin væri af erfiðleikastigi 5 og sagði ekkert sannanlegt liggja fyrir um yfirlýsingar marokkóska leiðsögumannsins í þá veru. Þvert á móti bendi öll gögn til þess að leiðin hafi frekar verið af erfiðleikastigi 1 eða 2, jafnvel þótt hallinn sem hjólað var í hafi sums staðar náð 70 gráðum. „Þar sem ferðin hafi snúist um að hjóla niður einstigi og asnastíga í fjalllendi hafi það ekki átt að koma neinum á óvart að um krefjandi aðstæður væri að ræða.“ Þá hafi allir ferðalangarnir verið stöðvaðir rétt fyrir slysið, aðstæður útskýrðar fyrir þeim og sérstaklega áréttað að hver og einn skyldi meta hvort hann vildi hjóla eða ganga. Konan hafi sjálf tekið ákvörðun um að hjóla og slysið megi fyrst og fremst rekja til þess, „enda hefði hún auðveldlega getað kosið að ganga með hjólið hafi hún ekki treyst aðstæðum“. Óhapp, ekki vanræksla Jafnframt var deilt um það hvort þjónustan hefði í raun verið keypt af ferðaskrifstofunni eða hvort hún hafi bara verið milliliður í viðskiptum við annað fyrirtæki – hálfgerð greiðslumiðlum – og þar með hvort rétt hefði verið að beina kröfunni að tryggingafélagi hennar. Úrskurðarnefndin taldi að kröfunni hefði vissulega verið beint að réttu fyrirtæki, en hafnaði henni engu að síður. Niðurstaðan er að ferðin hafi ekki verið markaðssett sérstaklega fyrir byrjendur og ljóst sé að fjallahjólreiðar feli í sér áhættu. „Af fyrirliggjandi ljósmyndum og lýsingum á aðstæðum treystir nefndin sér hins vegar ekki til að meta á hvaða erfiðleikastigi umrædd leið er,“ segir í niðurstöðunni. Fullyrðing konunnar og vinkvenna hennar um hvað marokkóski leiðsögumaðurinn eigi að hafa sagt sé ekki studd neinum sönnunargögnum og af öðrum fyrirliggjandi gögnum sé erfitt að draga þá ályktun að leiðin hafi verið af erfiðleikastigi 5. Í niðurstöðu nefndarinnar frá því fyrr á þessu ári segir því að annað liggi ekki fyrir en að slysið hafi verið óhapp og konunni er synjað um bætur.