Eltu ökumann úr Breiðholti alla leið í Mosfellsbæ

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu elti ökumann á fertugsaldri úr Breiðholti alla leið upp í Mosfellsbæ í nótt. Lögreglumenn notuðu lögreglubíla til að stöðva hraðan flótta mannsins en engin slys urðu á fólki. Í morgunskeyti lögreglunnar kom fram að ökumaður hefði valdið mikilli hættu með því að aka yfir hámarkshraða töluverða vegalengd. Lögreglumenn hafi þurft að aka á bílinn til að stöðva flótta mannsins. Hann var að lokum handtekinn. Árni Friðleifsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að tjón hafi orðið á bíl ökumannsins og minni háttar tjón á tveimur lögreglubílum. Engin slys urðu á fólki. Árni segir lögregluna hafa verið við eftirlit á Stekkjarbakka til móts við Skógarsel í Breiðholti og gefið manninum merki um að stöðva bílinn. Hann gerði það ekki og keyrði þaðan inn á Bústaðarveg. Þar ók hann nokkra hringi í hringtorginu við Sprengisand áður en hann hélt áfram upp Bústaðarveg. Þaðan ók hann inn á Vesturlandsveg og alla leið upp í Mosfellsbæ þar sem hann var stöðvaður við Skarhólabraut. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu elti í nótt ökumann á fertugsaldri úr Breiðholti alla leið í Mosfellsbæ. Lögregla notaði lögreglubíla til að stöðva flótta mannsins en engin slys urðu á fólki. Árni segir að svo virðist sem maðurinn hafi ekki verið á miklum hraða en að hann sé grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Hann hafi verið að keyra án ökuréttinda, þar sem búið var að svipta hann þeim áður en þetta gerðist. Maðurinn var handtekinn.