„Við getum ekki þagað yfir þessu“

„Við getum ekki þagað yfir þessu“

„Það var erfitt að sofna en það er off dagur í dag og við náðum að sofa aðeins fram yfir til klukkan átta,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, sem átti líkt og flestir í kringum íslenska liðið erfitt með svefn eftir galinn körfuboltaleik við Pólland á EM í Katowice í gær.

Rektor HÍ segir skýran rétt til bæði mótmæla og fyrirlestrahalds

Rektor HÍ segir skýran rétt til bæði mótmæla og fyrirlestrahalds

Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, var gestur í Silfrinu í kvöld. Þar ræddi Sigrún Hagalín Björnsdóttir við hana um atvik þar sem aflýsa þurfti fyrirlestri vegna mótmæla fyrir tæpum mánuði síðan. Þann 6. ágúst síðastliðinn stóð til að ísraelski fræðimaðurinn Gil Epstein, prófessor í hagfræði við Bar Ilan-háskóla í Ísrael, héldi fyrirlestur um áhrif gervigreindar á vinnumarkað og lífeyrismál í Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirlesturinn var á vegum Rannsóknastofnunar um lífeyrismál. Fyrirlestrinum var harðlega mótmælt af hópi fólks, sem innihélt meðal annars nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands. Tilefni mótmælanna var hernaður Ísraelsmanna á Gaza. Silja Bára segir að þá hafi stangast á réttur starfsfólks til mótmæla annars vegar og til viðburða- og fyrirlestrahalds hins vegar. Hún segist þó ekki geta tjáð sig um siðferðisleg vafamál er varða atvikið þar sem hún verði að gæta hlutleysis ef ske kynni að málið verði tekið fyrir af siðanefnd háskólanna. Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segir að tvenn réttindi hafi stangast á þegar aflýsa þurfti fyrirlestur ísraelsks fræðimanns vegna mótmæla í ágústmánuði. Sniðganga Rússland en engin ákvörðun um að sniðganga Ísrael Silja Bára sagði í Silfrinu að í Háskóla Íslands væru haldnir tugir ef ekki hundruð viðburða og fyrirlestra í mánuði hverjum. Engin miðstýring sé á því hvað sé um að vera en Silja minnist þess að hafa orðið var við fyrirhugaðan fyrirlestur Epsteins kvöldið áður. Aðspurð um hvort hún hefði brugðist við fyrirlestrinum með einhverjum hætti svaraði Silja neitandi. „Við sniðgöngum ekki sem stofnun ísraelskar stofnanir. Fræðafólk við Háskóla Íslands hefur frelsi til að vinna með og starfa með fólki sem að það kýs að gera. Við erum aðilar að sniðgöngu evrópskra háskóla á Rússlandi og sem slík þá myndum við ekki bjóða rússneskum fræðimönnum að koma hingað en einstaklingum er frjálst að bjóða hverjum sem er,“ sagði Silja Bára. Hún tók þó fram að einstökum fræðimönnum væri ekki heimilt að bjóða rússneskum fræðimönnum til landsins vegna sniðgöngunnar á Rússlandi. „En við erum ekki með stofnanalega sniðgöngu og það er umræða sem að hefur farið af stað inni í deildum. Hvort við ættum að vera með það hefur verið að síast upp í kerfinu en við höfum ekki tekið neina ákvörðun um það.“ Hún segir frelsi ríkja til þess að skipuleggja viðburði innan Háskóla Íslands. Þó hafi nokkrar deildir hafi lýst yfir sniðgöngu á Ísrael sem nái þá aðeins til starfsfólks þeirra deilda. Háskólaþing í nóvember vettvangur til ákvörðunartöku Í tíð fyrri rektors var tekin ákvörðun um að taka þátt í sniðgöngu evrópskra háskóla á Rússlandi. Samkvæmt Silju Báru var ákvörðunin tekin á vettvangi samtaka evrópskra háskóla sem Ísland er aðili að. Engin ákvörðun hafi verið tekin um sniðgöngu á Ísrael. „Ég er að undirbúa ferli þar sem ég er að biðja háskólasamfélagið að taka þátt í gegnum samræðulýðræðisgrundvöll í samtali um það hver er okkar ábyrgð og hverjar eru okkar skyldur þegar að kemur að svona aðstæðum,“ sagði Silja Bára. Hún segir ferlið eiga að fara af stað í október. Niðurstöðurnar verði kynntar á háskólaþingi í Nóvember. „Það er í raun og veru ákvörðunarbær vettvangur. Það eru ólík sjónarmið sem fá þá að koma fram og vera til umræðu en við höfum ekki átt þessa umræðu á grundvelli stofnunarinnar – hvort að við viljum sniðganga – en rétturinn til mótmæla er alveg skýr og rétturinn til að skipuleggja viðburði er alveg skýr.“ Það eru því tvenn réttindi sem stönguðust á þegar fyrirlestri Epsteins var mótmælt í byrjun ágústmánaðar. Silja Bára bendir á að þetta sé ekki einsdæmi innan Háskóla Íslands. Sem dæmi hafi mikið verið mótmælt aldursgreiningum á tönnum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem framkvæmdar voru innan stofnunarinnar. „En auðvitað viljum við að við getum átt skoðanaskipti og að það sé virðing fyrir báðum þessum réttindum. Í þessu tilviki tel ég að báðir aðilar hafi eitthvað til síns máls,“ sagði Silja Bára og bætti því við að hún hefði ekki getað tjáð sig um málið og muni ekki tjá sig um það. Það væri vegna þess að ef málið fer til siðanefndar háskólans endi það á hennar borði og þá verði hún að hafa gætt hlutleysis.