Varar við því að Rússar kunni að opna nýjar vígstöðvar
Volodymyr Zelenskyj forseti Úkraínu sagðist telja að Rússar kynnu að opna nýjar vígstöðvar í stríðinu um Úkraínu í viðtali við breska blaðið The Guardian á sunnudaginn. „Það held ég,“ sagði Zelenskyj. „Hann getur gert það. Við verðum að gleyma hinni almennu vantrú Evrópumanna um að Pútín vilji fyrst hernema Úkraínu og hann kunni síðan að fara eitthvað annað. Hann getur gert hvort tveggja á sama tíma.“ Zelenskyj sagði að tengja mætti aukna tíðni fjölþáttaógna í Evrópu, meðal annars rof á lofthelgi Póllands og flug dróna nærri flugvöllum í ýmsum Evrópuríkjum, við seinagang í framrás Rússa síðustu ár. „Pútín er í blindgötu þegar kemur að raunverulegum árangri. Þetta er frekar eins og pattstaða fyrir hann. Þess vegna gætu þessi feilspor leitt til þess að hann líti til annarra landsvæða. Þetta er mjög erfitt fyrir okkur en við erum heima og að verja okkur.“ Zelenskyj sagði að Karl III. Bretlandskonungur hefði leikið lykilhlutverk í því að fá Donald Trump Bandaríkjaforseta til að auka stuðning sinn við Úkraínu eftir átakafund þeirra Zelenskyj og Trumps í Hvíta húsinu í febrúar. „Ég veit ekki um öll smáatriðin en mér skilst að hans hátign hafi sent Trump forseta einhver mikilvæg skilaboð.“