Borguðu 48 milljónir vegna starfsloka tveggja skólastjórnenda
Samið var um að tveir stjórnendur hjá Reykjavíkurborg fengju greidd laun í fimmtán og nítján mánuði þegar þeir létu af störfum á tímabilinu frá maí í fyrra til maí í ár. Kostnaðurinn nam 48 milljónum króna. Alls hefur borgin gert þrettán starfslokasamninga við skólastjórnendur og stjórnendur á skóla- og frístundasviði frá 2015 til 2025. Heildarkostnaður þeirra miðað við verðlag í ár nemur 368 milljónum króna. Þetta kemur fram í uppfærðu svari við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fjallað var um það á fundi skóla- og frístundaráðs á mánudag. Svarið er viðbót við svar um útgjöld borgarinnar vegna slíkra samninga 2015 til 2024 sem birt var í vor. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu bókuðu að kjarni málsins væri einfaldur: hann væri sögulegur stjórnunarvandi á skóla- og frístundasviði þar sem borgin gripi ítrekað til þess úrræðis að kosta miklu til við að koma stjórnendum innan skóla- og frístundasviðs úr starfi. Morgunblaðið hefur eftir Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í dag að það sé óeðlilegt hversu háar fjárhæðir borgin greiði í starfslokasamninga. Í svari borgarinnar segir að fimm af þrettán stjórnendum hafi verið að nálgast starfslok vegna aldurs. Þeir hafi verið komnir í veikindaleyfi og fyrirséð að viðkomandi sneru ekki aftur til starfa. Hinir átta sem gerðu starfslokasamninga voru 44 til 60 ára og sammála um að ekki væru lengur forsendur fyrir því að þeir héldu starfi sínu áfram, annaðhvort vegna aðstæðna á staðnum eða annars sem komið hafði upp í tengslum við stjórnandann og stjórnun skólans.