„Þið Bretarnir farið á pöbbinn, við förum í sundlaugina“
Þið Bretarnir farið á pöbbinn, við förum í sundlaugina. Svona er fyrirsögn umfjöllunar á lífsstílsvef breska dagblaðsins Guardian um heilsuvenjur Evrópubúa sem höfundur segir þess virði að prófa. Í greininni fjallar lífsstílsblaðamaðurinn Sarah Phillips um heilsusamlegar hefðir tíu Evrópuþjóða. Meðal hefða sem hún fjallar um eru síðdegisblundur Spánverja og áhersla Svisslendinga á að borða fimm smærri máltíðir á dag frekar en þrjár stórar. En efst á lista Guardian er sundmenning Íslendinga. Í greininni segir að Íslendingar hafi um það bil eina sundlaug á hverja 2.500 íbúa. Það sé eins gott því sundferðir séu hluti af íslensku þjóðarsálinni, þó hefðin sé ekki mjög gömul. Hana megi rekja til þess að sundkennsla var gerð að skyldufagi í barnaskóla árið 1940. Phillips ræðir við Jón Karl Helgason, sem hefur gert tvær heimildarmyndir um íslenska sundmenningu. Hann útskýrir fyrir blaðamanni að Íslendingar alist upp í sundlauginni. Fyrst fari þeir með foreldrum sínum og síðar með kærustum. Jón Karl kveðst fara í sund í hverfislauginni sinni á hverjum degi. Hann segir sundlaugarnar ekki aðeins hafa góð heilsufarsleg áhrif heldur einnig samfélagsleg. Í sundi hittist fólk úr öllum kimum samfélagsins, frá bændum til stjórnmálamanna. Sérstaklega er tekið fram að engir símar séu leyfðir í íslenskum sundlaugum. Þið Bretarnir farið á pöbbinn, en við förum í sundlaugina, er haft eftir Jóni Karli.