„Öfgafyllsti atburður í veðursögu heimsins“

„Öfgafyllsti atburður í veðursögu heimsins“

„Algjör geðveiki á Íslandi. Það er heitara en á sumrin,“ segir á aðgangi á samfélagsmiðlinum X sem tileinkar sig öfgum í veðri um desemberhitametið sem slegið var á aðfangadagskvöld. Hiti mældist 19,8 stig á Seyðisfirði klukkan ellefu í gærkvöld. Það er hæsti hiti sem mælst hefur í desember, en fyrra metið var sett 2. desember 2019 þegar hiti mældist 19,7 stig í Kvískerjum í Öræfum. Veðuraðgangur á X heldur því fram að hitametið sem slegið var á Seyðisfirði í gær sé öfgafyllsti veðuratburður í sögu heimsins. Íslenskur veðurfræðingur segir það vel í lagt að halda því fram. Aðgangurinn á X, sem heitir Extreme Temperatures Around The World, bætir enn í og segir veðurviðburðinn þann öfgafyllsta í heimssögunni. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur skrifar á vef Bliku á Facebook að það sé heldur vel í lagt að halda því fram.

Sigursælasti Ólympíufari sögunnar urðaði yfir samlanda sína

Sigursælasti Ólympíufari sögunnar urðaði yfir samlanda sína

Bandaríski sundkappinn Michael Phelps hefur gagnrýnt forvarsmenn sundsambands Bandaríkjanna harkalega. Phelps er sigursælasti Ólympíukappi sögunnar en hann telur að sambandið sé veikburða og kallar eftir algjörri yfirhalningu þess vegna hnignunar í áraraðir. Bandaríkjamenn ætla að gera sundinu afar hátt undir höfði þegar kemur að Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 2028. Átti að vera þögull til að halda friði Hinn fertugi Phelps vann alls 28 Ólympíumedalíur. Þessi víðfeðmi sundkappi hefur gefið út að hann vilji ekki að synir hans fjórir taki þátt í sundi eins og staðan er í Bandaríkjunum. Phelps segir að málið eigi sér langan aðdraganda og að lítið hafi verið hlustað á ráð hans á meðan keppnisferlinum stóð. Phelps fékk þó skilaboð um að hann ætti að vera þakklátur fyrir tækifærið að fá að keppa og að hann ætti að vera þögull til að halda friðnum. Phelps lagði sundhettuna á hilluna árið 2016. Byrjaði vandamálið í París? Árið 2016 vann bandaríska sveitin 33 medalíur en á leikunum í París á síðasta ári náðu Bandaríkjamenn í 28 medalíur. Það er versti árangur bandarísku sundsveitarinnar í medalíusöfnun frá leikunum í Aþenu 2004. Gagnrýni Phelps kom í kjölfarið á HM í sundi í sumar, en hugsanir hans voru byrjaðar að krauma eftir París. „Til að byrja með vil ég gera það algjörlega skýrt að ég ber mikla virðingu fyrir því sundfólki sem keppir fyrir Bandaríkin. Gagnrýni mín snýr á engan hátt að þeim. Ég veit hversu mikið þau leggja á sig til að keppa fyrir Bandaríkin.” „Gagnrýni mín snýr að kerfinu og stjórnarháttum og hvernig það er að klikka. Það hafa alltaf verið vandamál síðustu níu ár en ég hef séð þeim fjölga.“ Phelps segist hafa boðið aðstoð sína en að hjálparhönd hans hafi ekki verið tekið. Hann leggur til að sjálfstæð nefnd fylgist með störfum sundsambandsins. Auk þess vill hann sjá að sundfólk fái meiri stuðning í formi þjónustu. Þá vill hann að grasrótarstarf í sundi verði eflt fyrir yngstu iðkendurna . Setja sundið í fyrsta sæti Bandaríkjamenn ætla sér stóra hluti í sundhluta Ólympíuleikanna sem haldnir verða í Los Angeles sumarið 2028. Athygli hefur vakið að þeir hafa skipulagt leikana þannig að sundkeppnin verður í seinni viku leikanna. Mikil hefð er fyrir því að enda Ólympíuleika á frjálsíþróttum en Bandaríkjamenn ætla að setja sundið í fyrsta sæti. Keppni hófst á sundi í París 2024 og lauk svo með frjálsíþróttahluta leikanna. SoFi vellinum í Los Angeles verður breytt í 38.000 manna sundhöll, sem er stærsta svið sem sundið hefur fengið á Ólympíuleikunum. Þá hafa Bandaríkjamenn einnig fengið það í gegn að keppt verður í 50 metra bak-, bringu- og skriðsundskeppni. Legsteinn frá Lochte Ryan Lochte gagnrýndi einnig sundsambandið eftir HM í Singapore í ágúst. Hann deildi legsteini á samfélagsmiðlum með áskriftinni „Í minningu Sundsambands Bandaríkjanna. Þau settu markið hátt – þangað til þau hættu að reyna að ná því.“ Lochte talaði einnig um leikana í LA 2028. „Kallaðu þetta jarðarför eða nýtt upphaf. Við höfum þrjú ár.“ Gagnrýni tvíeykisins kom í kjölfarið á HM í Singapúr í sumar. Þrátt fyrir það sem þeim fannst afhroð var bandaríska sundsveitin fremst í medalíusöfnun og endaði með níu gull og 29 medalíur í heildina.

Páfi bað fyrir fórnarlömbum stríðsins á Gaza

Páfi bað fyrir fórnarlömbum stríðsins á Gaza

Leó páfi hélt sína fyrstu jóladagspredikun á svölum Péturskirkjunnar, í Róm, í morgun. Hann fordæmdi afleiðingar átaka og sagði stríð skilja eftir rústir og opin sár. Hann talaði um hið alvarlega ástand á Gaza og aðstæður fórnarlamba stríðsins og sagðist hugsa til þeirra sem hírast í tjöldum á Gaza í rigningu og kulda. Hann sagðist hugsa til flóttamanna og heimilislausra. Bað fyrir viðræðum um frið í Úkraínu Leó páfi bað Rússa og Úkraínumenn að finna hugrekki til friðarviðræðna. Hann óskaði þess að alþjóðasamfélagið aðstoðaði stríðandi fylkingar við að leita friðar. Páfi predikaði í messu í Péturskirkjunni í gærkvöld. Þá sagði hann að saga jólanna og jólaguðspjallið ættu að minna alla á mikilvægi þess að hjálpa þeim fátæku. Hann sagði ekkert pláss fyrir guð á jörðinni ef ekki væri pláss fyrir allar manneskjur. Ef guði væri hleypt inn yrði hesthús jafnvel að musteri.