Sænski tollurinn leggur hald á Lafufu
Sænski tollurinn hefur lagt hald á yfir 5.300 Lafufu-tuskudýr. Tuskudýrin eru eftirlíking af vinsælu kínversku tuskudýrunum Labubu. Per Holgersson, tollvörður hjá sænska tollinum segir engin merki um að sendingum fari fækkandi, þvert á móti . Bönnuð eiturefni hafa fundist í eftirlíkingunum. Efnastofnun Svíþjóðar varar við tuskudýrunum og hvetur fólk til að henda þeim í ruslið hið snarasta. Eiturefnin geti truflað hormónastarfsemi og haft áhrif á frjósemi sé fólk útsett fyrir þeim í langan tíma. Eiturefnin sem fundust í Lafufu-tuskudýrunum eru bönnuð innan Evrópu. Frida Ramström, sérfræðingur hjá Efnarannsóknarstofnun Svíþjóðar, segir að það skaði ekki að eiga eina slíka dúkku. „En við vitum að þessi efni eru ekki föst í plastinu að eilífu, þau leka út og enda til dæmis í ryki á heimilinu sem fólk andar að sér.“ Í fimm af hverjum sjö dúkkum fundust þalöt. Slík efni eru til dæmis notuð til að mýkja plast og gera það sveigjanlegra. Ramström varar við að efnin geti truflað hormónastarfsemi og haft áhrif á frjósemi, sé fólk útsett fyrir þeim í langan tíma.