Leiðtogar Evrópusambandsins heita óbilandi stuðningi við Úkraínu áfram
Leiðtogar Evrópusambandsins heita fullum áframhaldandi stuðningi við Úkraínu í aðdraganda fundar forseta landsins með Bandaríkjaforseta. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kveðst í færslu á X fagna öllum tilraunum til að koma á sanngjörnum og varanlegum friði, sem tryggi fullveldi og landsréttindi Úkraínu. Allt slíkt styrki varnir og öryggi landsins og Evrópu allrar jafnframt. Von der Leyen heitir jafnframt áframhaldandi þrýstingi á Rússa og stuðningi við Evrópusambandsaðild Úkraínumanna. Þau Antonio Costa, forseti Evrópuráðsins, ræddu símleiðis við Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta í dag auk fleiri leiðtoga Evrópuríkja. Zelensky hitti Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, á leið sinni til Flórída í Bandaríkjunum. Carney sagði þungar árásir Rússa á Úkraínu síðustu nótt sýna hve brýnn stuðningur við Úkraínu sé. Hann sagði allan möguleika á sanngjörnum og varanlegum friði, en að Rússar yrðu einnig að vera tilbúnir. Rússar hafa sagt Úkraínumenn og bandamenn þeirr ætla að sökkva upphaflegum drögum að friðaráætlun. Costa bergmálaði stuðningsorð von der Leyen, hét Úkraínumönnum liðsinni við uppbyggingu að loknu stríði og hótaði Rússum frekari refsiaðgerðum ef þurfa þætti. Hann tíundaði aðgerðir sem hann sagði hafa eflt Úkraínu og sagði styrk og velsæld þar tryggja öryggi. „Við leitum áfram leiða að varanlegum friði í Úkraínu í samvinnu við samherja okkar í Bandaríkjunum,“ sagði Costa.