Rannsaka Ítali sem sakaðir eru um að hafa skotið Bosníumenn á færi sér til skemmtunar
Saksóknarar í Mílanó á Ítalíu hafa hafið rannsókn á Ítölum sem grunaðir eru um að hafa ferðast til Sarajevó, höfuðborgar Bosníu og Hersegóvínu, til þess að skjóta þar almenna borgara á færi. Meira en 10 þúsund manns voru drepnir í Sarajevó í sprengjuárásum og af leyniskyttum á árunum 1992 til 1996. Umsátrið um borgina sem hófst í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar Bosníu og Hersegóvínu frá Júgóslavíu er það lengsta í nútímasögunni. Íbúar borgarinnar óttuðust leyniskytturnar sérstaklega. Þær drápu fólk af handahófi, þar á meðal börn, þar sem það gekk um götur borgarinnar. Í heimildarmyndinni Sarajevo Safari sem kom út fyrir þremur árum segir fyrrum hermaður serbneska hersins frá því að ferðamenn víða að úr Evrópu hafi greitt hermönnum háar upphæðir til þess að ferðast upp í hlíðarnar umhverfis Sarajevó til þess að skjóta almenna borgara sér til skemmtunar. Margir hermenn serbneska hersins hafa ætíð sagt þessa staðhæfingu ekki sanna. Nokkrir úr hópi grunaðra verða yfirheyrðir á næstu vikum Saksóknarar í Mílanó hófu rannsókn á þætti Ítala í þessum morðum eftir að maður að nafni Ezio Gavazzeni lagði fram kæru. Gavazzeni segir í samtali við The Guardian að hann hafi fyrst heyrt af þessum ferðum í ítölskum fréttum á tíunda áratugnum. Eftir að hafa séð Sarajevo Safari hóf hann að rannsaka málið betur. Hann segir fjölmarga Ítala liggja undir grun en einnig fólk víða að úr Vestur-Evrópu, meðal annars Þýskalandi, Frakklandi og Englandi. „Það liggja engar pólitískar eða trúarlegar ástæður fyrir þessu. Þetta var ríkt fólk sem fór í þessar ferðir til skemmtunar,“ segir Gavazzeni. Nicola Brigida, lögfræðingur sem hefur aðstoðað við undirbúning málsins, segir kæruna vel rökstudda sönnunargögnum sem Gavezzeni hefur safnað eftir ítarlega rannsókn. Gavazenni segist hafa náð að bera kennsl á nokkra Ítali sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í þessum árásum. Búist er við því að þeir verði yfirheyrðir af saksóknurum á næstu vikum.