Jólaveðrið hvasst og blautt með gulum og appelsínugulum viðvörunum
Sunnan hvassviðri eða stormur gengur yfir stóran hluta landsins í dag, aðfangadag jóla. Hvassast verður norðanvert á landinu. Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að spáð sé talsverðri eða mikilli rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi fyrir stærstan hluta landsins og Veðurstofan hvetur fólk til að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Veðurstofan varar við að lausamunir geti fokið, flóðum, skriðuföllum og auknu álagi á fráveitukerfi. Víða getur skapast hætta fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Vegagerðin hvetur vegfarendur til að gæta varkárni í ljósi þeirrar miklu rigningar og hlýinda sem spáð er á Vestfjörðum og Vesturlandi. Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands hefur varað við auknum líkum á grjóthruni og skriðum yfir vegi sem liggja undir bröttum hlíðum. Landsnet varar við að rafmagnslínum geti slegið saman á vestanverðu Norðurlandi og truflunum, einkum vegna sviptivinda í sunnanáhlaupinu sem gengur þar yfir. Hins vegar verður lengst af þurrt norðaustan- og austantil á landinu. Óvenju hlýtt verður í dag, sjö til átján stiga hiti, hlýjast í hnjúkaþey á Norður- og Austurlandi. Á morgun, jóladag, dregur smám saman úr vindi með sunnanstinningskalda, allhvössum vindi eða hvassviðri síðdegis. Áfram rignir talsvert eða mikið á sunnan- og vestanverðu landinu, en léttskýjað verður á Norðaustur- og Austurlandi og áfram hlýtt í veðri. Skil fara yfir landið aðfaranótt föstudags og þá dregur loksins aðeins úr vætu. Líklegt þykir að öllu innanlandsflugi Icelandair verði aflýst í dag vegna veðursins. Síðustu flugferð gærkvöldsins hjá Icelandair var aflýst vegna veðurs og segir Guðni Sigurðsson, upplýsingsfulltrúi Icelandair svipaða veðurspá fyrir daginn í dag. Allt flug til og frá Keflavík er á áætlun samkvæmt upplýsingum á vef Isavia .