Aukin svikastarfsemi í netverslun í tengslum við tilboðsdaga
Netverslun eykst á tilboðsdögum á þessum tíma árs og fleiri lenda í svikum henni tengdum. Bankar hafa sent viðskiptavinum sínum leiðbeiningar um hvernig megi best tryggja öryggi við netverslun. Ráðleggingar um öryggi í netverslun Bankarnir eru allir með nýlegar færslur um öryggi í netviðskiptum ofarlega á vefsíðum sínum þessa dagana. Sumir þeirra hafa sent viðskiptavinum sérstakan póst til að brýna fyrir þeim góð ráð í aðdraganda tilboðsdaganna í nóvember. Ráðleggingar á vef Íslandsbanka Ráðleggingar á vef Arion banka Ráðleggingar á vef Landsbankans Dagur einhleypra er á morgun og síðar í mánuðinum auglýsa verslanir tilboð í nafni svarts föstudags og rafræns mánudags. Bjarney Anna Bjarnadóttir hjá Íslandsbanka segir netverslun aukast í kringum þessa daga. „Með aukinni verslun þá fjölgar tilfellum netsvika en svo er það líka það að óprúttnir aðilar hugsa sér gott til glóðarinnar þegar vitað er af fólki sem er að leita uppi afslætti og nýta tækifærið og búa til gerviverslanir og gervi-afsláttarsölur sem fólk hefur lent í.“ Bjarney segir að það mikilvægasta sem neytendur geri sé að vera vakandi, ef eitthvað líti út fyrir að vera of gott til að vera satt þá sé raunin sennilega einmitt sú að það sé ekki satt. „Þetta er bara spurning um að vera vakandi, gefa sér góðan tíma og kynna sér seljendur og passa að skrá sig ekki inn með rafrænum skilríkjum nema ætlun hafi staðið til þess, ekki opna grunnsamlega tengla, hlekki eða viðhengi. Gefa ekki upp kreditkortanúmer eða aðrar bankaupplýsingar og kanna netföng þeirra sem senda póst og þar fram eftir götunum.“ Gruni fólk að það hafi orðið fyrir barðinu á svikahröppum leggur Bjarney áherslu á að það bregðist hratt við með því að frysta öll greiðslukort í gegnum bankaapp, skrá sig út í öllum tækjum og hafa samband við sinn banka.