Nokkrir meintir Hamas-liðar í haldi lögreglu grunaðir um skipulagningu árása á Ísrael og stofnanir gyðinga

Nokkrir meintir Hamas-liðar í haldi lögreglu grunaðir um skipulagningu árása á Ísrael og stofnanir gyðinga

Saksóknarar í Þýskalandi segja lögreglu hafa handtekið einn mann til viðbótar, grunaðan um að tilheyra deild innan Hamas-hreyfingarinnar sem hugðist ráðast með ofbeldi gegn Ísraelsmönnum og stofnunum gyðinga í landinu. Hann var handtekinn seint á þriðjudaginn þegar hann kom til Þýskalands frá Tékklandi. Maðurinn hefur verið nafngreindur sem Borhan El-K og er sagður hafa sankað að sér vopnum, sjálfvirkum riffli, skammbyssum og skotfærum í ágúst og afhent þau öðrum manni, grunuðum í málinu. Sá er nafngreindur sem Wael F. og er einn þriggja sem voru handteknir í Berlín í október grunaðir um útvegun skotvopna og skotfæra. Einn maður til viðbótar var handtekinn í Lundúnum í síðustu viku og danska lögreglan gerði húsleitir í Kaupmannahöfn og nágrenni í tengslum við rannsóknina að beiðni þeirrar þýsku. Hamas þvertekur fyrir að eiga nokkra aðild að ráðabrugginu.

Norskir ráðamenn vilja ekki einir tryggja lán til Úkraínu

Norskir ráðamenn vilja ekki einir tryggja lán til Úkraínu

Norski forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre sagði á þingfundi í gær útilokað að bjóðast til að nota eftirlaunasjóð Noregs til að tryggja aðgerðir sem enn eru til umræðu. Mikilvægt sé að fjárfestingar olíusjóðsins séu öruggar. Fjármálaráðherrann Jens Stoltenberg segir af og frá að Noregur einn gangist í ábyrgð fyrir láninu en útilokar ekki einhverja aðkomu, réttast sé að bíða niðurstöðu Evrópusambandsins. Tveir norskir hagfræðingar, Havard Halland og Knut Anton, stungu upp á ábyrgð Noregs í október þrátt fyrir að landið sé ekki í Evrópusambandinu. Þeir bentu á að Noregur hefði hagnast um 109 milljarða evra aukalega vegna verðhækkana á olíu og gasi til ríkja í Vestur-Evrópu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Noregur væri í raun stríðsgróðaland sem hefði svo gott lánstraust að það gæti hæglega tryggt lánið án þess að skaða orðspor sitt nokkuð. Með láninu eiga Úkraínumenn að geta tryggt fé til borgaralegra og hernaðarlegra framkvæmda næstu tvö ár. Framkvæmdastjórn ESB hefur í hyggju að nýta rússneskt fé sem evrópskir bankar frystu eftir innrásina. Úkraínumenn þurfa ekki að endurgreiða lánið nema Rússar verði látnir greiða stríðsskaðabætur. Megnið af rússneska fénu er fryst hjá alþjóðlega fjárfestingarbankanum Euroclear sem hefur aðsetur í Belgíu og þarlend stjórnvöld hafa lýst efasemdum um lánveitinguna af ótta við hefndaraðgerðir Rússa.

Epstein sagður hafa viljað veita Rússum innsýn í hugarheim Trumps

Epstein sagður hafa viljað veita Rússum innsýn í hugarheim Trumps

Repúblikanar í eftirlitsnefnd Bandaríkjaþings hafa birt yfir 20 þúsund skjöl sem dánarbú kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein lét af hendi fyrr á árinu. Þingmennirnir og Donald Trump forseti sjálfur segja að Demókratar í nefndinni hafi viljað ata hann auri með birtingu þriggja tölvupósta þar sem nafns hans er getið. Því hafi þeir ákveðið að birta lungann úr skjölunum, sem bandarískir miðlar eru nú að yfirfara. Þingmennirnir segja að í póstsamskiptum frá 2011 hafi Epstein sagt Ghislaine Maxwell frá því að Trump hefði varið klukkustundum með einu fórnarlamba Epsteins á heimili hans. Trump kemur viðar við sögu í tölvupóstum Epsteins. Hann er sagður hafa boðið Rússum leiðbeiningar um hvernig best væri að ræða við forsetann. „Þú getur laumað því að Pútín að Lavrov geti fengið innsýn í hugarheim Trumps með því að tala við mig,“ segir í tölvupósti frá 2018 til Thorbjørns Jagland, þáverandi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Þar segist Epstein einnig hafa gefið Vitaly Churkin, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, upplýsingar um Trump. Andrew Mountbatten Windsor, fyrrverandi Bretaprins, bað Epstein um að halda nafni sínu utan allra dómskjala. Þetta kemur fram í tölvupósti frá í mars 2011 þar sem prinsinn fyrrverandi biður Epstein um að segja yfirvöldum að hann hafi ekki átt nokkurn þátt í misnotkun Virginiu Guiffre. Hann viti ekkert hvað gerðist og þoli ekki lengur ásakanir um að hafa brotið gegn henni.

Land við Öskju hefur risið um nærri einn metra á rúmum fimm árum

Land við Öskju hefur risið um nærri einn metra á rúmum fimm árum

Fyrir fáum dögum varð jarðskjálfti í Öskju 3,5 að stærð og þótt það séu kannski ekki fréttir að jarðskjálfti mælist í Öskju, þá eru svo stórir skjálftar ekki algengir þar. „Ekkert mjög algengir en þeir eru ekkert einstakir. Það gerist alveg annað slagið að það verða svona skjálftar þarna en þeir eru alls ekki algengir,“ segir Benedikt G. Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands. Geta verið margar ástæður fyrir svo stórum jarðskjálfta Hann segir ekkert hægt að lesa eitthvað sérstaklega í þennan skjálfta. „Nei það getur verið erfitt að lesa eitthvað í einstaka skjálfta. Það eru margar ástæður sem geta verið fyrir þeim og erfitt erfitt að túlka svona einstaka atburði, sérstaklega í ljósi þess að þetta gerist annað slagið. Það er erfitt að alla vega að tengja þetta beint við landrisið og kvikusöfnunina undanfarið en það er að sjálfsögðu ekki útilokað.“ Það eru rúm fimm ár síðan Askja vaknaði, ef svo má segja. Í áratugi seig land við Öskju, en það snerist við sumarið 2022 og síðan þá hefur land risið hratt. „Já, alla vega frá því 1976 þegar menn fóru aftur að mæla landbreytingar í Öskju, þá var bara stöðugt sig þangað til núna. Það er 2021 sem við sjáum þess merki um að það fer að vera landris og það var talsvert hratt í upphafi og alveg þangað til á miðju ári ´23 þá fór að hægja á því. Það hægðist talsvert á því en það var bara stöðugt samt eftir það og það hefur verið viðvarandi landris síðan, ekki með miklum breytingum. „ Hvað er þetta mikið landris? “ „Þetta er alveg hátt í metra í lóðrétta færslu,“ segir Benedikt. „Eins og staðan er núna sjáum við engin merki um að neitt sé yfirvofandi“ Jarðfræðingar meta það sem svo að landrisið sé vegna kviku sem flæðir undir Öskju á þriggja til fimm kílómetra dýpi og þrýsti jarðskorpunni upp á við. Það séu vissulega aðrar mögulegar ástæður, en þetta er talin langlíklegasta skýringin. „Við aftur á móti höfum ekki séð til dæmis verulegar breytingar á jarðhitakerfinu þannig að þetta virðist ekki vera að nálgast neitt yfirborð eða vera farið að hafa veruleg áhrif á efri part jarðskorpunnar þar sem jarðhitavirkni er. Þannig að alla vega enn þá erum við ekki sjá neitt slíkt. En það er oft kemur seinna.“ Það er rúmt ár síðan Spegillinn talaði síðast við Benedikt um Öskju. Þá sagði hann allt þetta skýr merki um að þar gæti aftur farið að gjósa, en það væri hins vegar ekkert hægt að segja til um hvenær. „Við höfum í rauninni engir engar aðferðir til að spá neitt fyrir um það, bara með þessa virkni og í rauninni gætum við bara verið að sjá eitthvað tímabundið ferli sem hættir svo í langan tíma. En svo líka getur þetta tekið sig upp á morgun þess vegna og við fáum mikla skjálftavirkni og meiri aflögun og eitthvað gerist á stuttum tíma. En en eins og staðan er núna sjáum við engin merki um að neitt sé yfirvofandi. Þar sem við gerum núna er bara að fylgjast með og svo láta vita ef það verða breytingar.“ Land við Öskju hefur risið um nærri einn metra frá því landris hófst á ný við eldstöðina fyrir rúmum fimm árum. Haldi þessi þróun áfram gæti endað með eldgosi, segir jarðfræðingur, en svo gæti allt dottið í dúnalogn og ekkert gerst. Það er mjög þétt mælanet í Öskju sem hefur verið sett þar upp undanfarin misseri. Því er hægt að fylgjast mjög náið með þróuninni þar. „Já, já, við erum með Öskju vel vaktaða, það er alveg óhætt að segja það. En það er alltaf aðeins erfitt að reka þetta net á veturna upp á miðju hálendinu þannig að það eru alveg gloppur í því stundum. En á sumrin þegar er túristaumferð þarna, þá erum við með hana alveg mjög vel vaktaða.“ Erfitt að segja til um hvað Askja þolir mikla þenslu áður en jarðskorpan brestur Síðast gaus í Öskju árið 1961 - allstórt hraungos sem varði í fimm til sex vikur. Þá myndaðist gígaröðin Vikraborgir og Vikrahraun rann niður á sléttlendið austan við Öskju. Fyrir þetta gos voru engar mælingar á landrisi og því er sáralítil þekking á breytingum í eldstöðinni áður en gaus ´61. Því er erfitt að segja til um hvað Askja þolir mikla þenslu áður en jarðskorpan brestur og fer að gjósa. „Og það var talsvert landris í kjölfarið á því, alveg fram til '72, þá held ég að hafi verið síðasta mælingin. Svo varð aðeins pása á þessum mælingum í Kröflueldum en svo eftir Kröfluelda þegar menn fóru að mæla þarna aftur þá sáu menn að landrisið var hætt og það var farið að síga, þannig að það er í rauninni það eina sem við höfum.“ „Þannig að þið vitið ekki hvað Askja þolir?“ „Nei, við vitum það ekki og það getur verið miklu meira áður en eitthvað er að gerast. Við höfum í rauninni enga hugmynd um það.“

Appelsínugul veðurviðvörun gefin út fyrir Kanaríeyjaklasann

Appelsínugul veðurviðvörun gefin út fyrir Kanaríeyjaklasann

Vegfarendur með regnhlífar verjast hellirigningu í Cordoba á Spáni í októberlok.EPA / Salas Yfirvöld á Spáni hafa gefið út appelsínugula viðvörun vegna ofsaveðursins Claudiu sem ríður yfir Kanaríeyjaklasann. Varað er við miklu hvassviðri, úrhellisrigningu, miklum öldugangi, flóðum og eldingaveðri. Stormurinn skall á Gran Canaria í kvöld og Lanzarote og Fuerteventura í fyrramálið.