Man City nálgast toppinn eftir stórsigur á Liverpool

Man City nálgast toppinn eftir stórsigur á Liverpool

Manchester City tók á móti Liverpool í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta síðdegis. Fyrir leikinn var Man City með 19 stig en Liverpool 18 stig. Stigin í boði voru afar mikilvæg í baráttunni um að saxa á forskot toppliðs Arsenal (26 stig) sem gerði aðeins jafntefli við Sunderland í gær eftir langa sigurgöngu. Man City fékk umdeilda vítaspyrnu á 12. mínútu. Giorgi Mamardashvili markvörður Liverpool varði hins vegar vítaspyrnuna frá Erling Haaland. Norðmaðurinn bætti hins vegar fyrir þau mistök á 30. mínútu þegar hann skoraði frábært skallamark eftir sendingu frá Matheus Nunes. Þetta var 99. mark Haaland í ensku úrvalsdeildinni. Þegar komið fram í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Nico González annað mark fyrir City sem var 2-0 yfir í hálfleik. Örlítill heppnisstimpill var á markinu því boltinn hafði viðkomu af Virgil van Dijk og það tók Mamardashvili markmann úr jafnvægi. Jérémy Doku kórónaði stórleik sinn þegar hann bætti svo þriðja marki heimamanna við á 63. mínútu og gerði endanlega út um leikinn. Doku hafði leikið 24 deildarleiki í röð án þess að skora en það gerði hann síðast í janúar. 3-0 urðu lokatölur og Man City fór tveimur stigum upp fyrir Chelsea í annað sætið með 22 stig, fjórum stigum á eftir toppliðinu Arsenal. Liverpool er áfram með 18 stig í áttunda sæti deildarinnar. Aston Villa í stuði Fjórir leikir fóru fram í deildinni fyrr í dag. Bournemouth er að fatast flugið eftir að hafa verið í toppbaráttunni og tapaði öðrum leik sínum í röð. Bournemouth steinlá 4-0 fyrir Aston Villa sem hefur unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í deildinni og eitt af fjórum liðum sem eru með 18 stig í sjötta til níunda sæti. Nottingham Forest vann sinn fyrsta sigur undir stjórn nýja knattspyrnustjórans Sean Dyche og er nú aðeins einu stigi frá því að komast úr fallsæti. Úrslit dagsins Aston Villa - Bournemouth 4-0 Brentford - Newcastle 3-1 Crystal Palace - Brighton 0-0 Nottingham Forest - Leeds 3-1 Manchester City - Liverpool 0-0

Farmur 205 steypubíla fór í nýja brú  yfir Breiðholtsbraut

Farmur 205 steypubíla fór í nýja brú yfir Breiðholtsbraut

Steypuvinnu við nýja brú yfir Breiðholtsbraut er lokið. Alls fóru 1650 rúmmetrar af steypu í brúna eða sem nemur 205 steypubílum. Breiðholtsbraut á milli Jaðarsels og Vatnsendahvarfs verður opnuð fyrir umferð á ný klukkan fimm í nótt. Lokað hefur verið fyrir umferð frá því á föstudag vegna vinnu við að steypa nýja brú yfir brautina. Næstu tíu til fjórtán daga verður þessi sami kafli lokaður á nóttunni, frá klukkan tíu á kvöldin til klukkan hálf sjö á morgnana. Fyrstu dagana, á meðan steypan er að harðna, verður hæðartakmörkun fjórir metrar, en eftir það verður hæðartakmörkun fjórir komma tveir metrar. Hámarkshraði verður 30 kílómetrar á klukkustund á meðan unnið er við brúna. Vegagerðin ítrekar að mjög mikilvægt er að verktakar, flutningsaðilar, sem og aðrir virði hæðartakmarkanir svo ekki verði slys á fólki eða skemmdir á brúnni. Hámarkshraði hefur verið lækkaður í 30 km/klst á meðan unnið er við brúna.Vegfarendur eru beðnir um að sýna tillitssemi og þolinmæði meðan á framkvæmum stendur.

Útvarpsstjóri og fréttastjóri BBC segja af sér vegna falsfréttar

Útvarpsstjóri og fréttastjóri BBC segja af sér vegna falsfréttar

Tim Davie, útvarpsstjóri BBC, og Deborah Turness fréttastjóri hafa sagt af sér embætti vegna fölsunar á ræðubút Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í heimildarmynd sem var sýnd á BBC. Þau greindu frá þessu fyrir skemmstu. Í tilkynningu frá Davie segist hann axla ábyrgð á þeim mistökum sem hafi verið gerð innan fréttastofunnar. BBC sé einstök stofnun en þurfi alltaf að gæta að gagnsæi og ábyrgð. Orð Donalds Trumps slitin úr samhengi Breska blaðið Telegraph greindi frá því í síðustu viku að BBC hefði splæst saman tveimur óskyldum bútum úr ræðu sem Trump flutti í janúar 2021 til að láta líta út fyrir að hann hefði hvatt stuðningsmenn sína til að ráðast inn í þinghúsið. „Við ætlum að labba niður að þinghúsi og berjast -- berjast eins og andskotinn,“ hljómaði þetta í útgáfu sem BBC sýndi í þættinum Panorama. Hið rétta er að Trump sagði: „Við ætlum að labba niður að þinghúsi og hvetja hugrökku þingmennina okkar til dáða.“ Seinni hluti klippunnar um að berjast eins og andskotinn var vissulega úr ræðunni, en í öðru samhengi 50 mínútum síðar. Lisa Nandy menningarmálaráðherra Bretlands hafði sagt í viðtali í dag að stofnunin líti þetta alvarlegum augum og það geri hún líka. Stjórnarformaður BBC, Shamir Shah, hafði sagst mundu veita henni skýringar á morgun. Þá var búist við því að BBC muni biðjast formlega afsökunar á morgun. Ráðherrann segir í viðtalinu að oft sé ósamræmi í ritstjórnarákvörðunum BBC, stefnu og hugtakanotkun. Þannig virðist slíkt of oft vera sett í hendur einstakra blaðamanna.

Hátíð í borg

Hátíð í borg

Það getur verið frískandi að kíkja í borgarferð í jólafríinu, klára jólagjafainnkaupin og fá jólaandann beint í æð. Ferðirnar sem standa til boða eru fjölbreyttar á þessum tíma árs og hefur Viðskiptablaðið tekið saman nokkrar borgir sem tilvalið er að heimsækja í kringum jólin.